„Börnin eru fyrst og fremst fórnarlömb“

76 þúsund konur og börn eru í flóttamannabúðunum al-Howl.
76 þúsund konur og börn eru í flóttamannabúðunum al-Howl. AFP

Lögmenn unglingsstúlkunnar Shamimu Begum reyna nú að fá bresk yfirvöld til þess að heimila þremur börnum sem félagar í vígasamtökunum Ríki íslams hafa eignast eða haft með sér til Sýrlands að koma til Bretlands. Börnin eiga öll breska mæður og er eitt þeirra fætt í Bretlandi. Börnin dvelja öll í flóttamannabúðum í Sýrlandi.

Begum, sem óskaði eftir því að fá að snúa aftur heim til Bretlands í febrúar, fæddi dreng aðeins nokkrum dögum eftir að bresk yfirvöld sviptu hana ríkisborgararétti. Sonur hennar lést í flóttamannabúðunum tæpum þremur vikum eftir fæðingu. 

Um eitt þúsund fylgdarlaus börn eru í al-Hawl flóttamannabúðunum. Mörg …
Um eitt þúsund fylgdarlaus börn eru í al-Hawl flóttamannabúðunum. Mörg þeirra eru evrópsk. AFP

Lögmaður Begums, Tasnime Akunjee, segir að önnur ríki hafi í einhverjum tilvikum heimilað börnum vígafólks að snúa aftur til heimalandsins. Þetta kemur fram í Obersver í dag. Á föstudag greindu þýsk yfirvöld frá því að þau hefðu flutt nokkur börn vígafólks heim frá Írak. 

Frakkar hafa ákveðið að taka við fimm munaðarlausum börnum en foreldrar þeirra voru félagar í Ríki íslams. Frönsk yfirvöld segja að hvert mál verði skoðað sérstaklega þegar kemur að börnum vígafólks.

Í gær ítrekaði Alþjóðaráð Rauða kross­ins (ICRC) við bresku ríkisstjórnina að Rauði krossinn er reiðubúinn til þess að veita liðsinni við að koma börnunum úr flóttamannabúðunum í norðausturhluta Sýrlands áleiðis heim á leið til Bretlands. 

Elodie Schindler, talskona ICRC, segir að samtökin séu reiðubúin til að veita öllum ríkisstjórnum aðstoð við að koma börnunum til aðstoðar. „Börnin eru fyrst og fremst fórnarlömb.“

Schindler segir að ICRC sé í samskiptum við ríkisstjórnir í Evrópu en vildi ekki staðfesta að viðræður væru í gangi við ríkisstjórn Bretlands.

Í mörgum tilvikum er ekkert vitað hverjir eru foreldrar barnanna …
Í mörgum tilvikum er ekkert vitað hverjir eru foreldrar barnanna þar sem þau eru ung að árum. AFP

Frá því Ríki íslams misstu yfirráðin á ákveðnum svæðum í Sýrlandi í síðasta mánuði hafa um 76 þúsund konur og börn komið í al-Hawl flóttamannabúðirnar. Af þeim er talið að yfir 10 þúsund séu af öðru þjóðerni en sýrlensku eða írösku. Um eitt þúsund fylgdarlaus börn eru í búðunum. Akunjee segir að mörg þeirra séu greinilega af evrópskum uppruna en enginn veit hverjir foreldrar þeirra eru. Börnin eru flest á aldrinum eins til þriggja ára gömul.

Frétt Guardian 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert