Gjaldtaka vegna mengandi bíla í miðborg Lundúna var tekin í gagnið í dag og munu ökumenn bifreiða sem ekki uppfylla ströngustu mengunarreglur þurfa að greiða rúmlega 12 pund til þess að komast inn í miðborgina.
Greint er frá því í frétt BBC af málinu að gert sé ráð fyrir því að gjaldtakan muni ná til um 40 þúsund bifreiða dag hvern.
Borgarstjóri Lundúna segir einkar mikilvægt að brugðist sé við síaukinni mengun í höfuðborginni, en eigendur smærri fyrirtækja á svæðinu hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif gjaldið gæti haft á viðskipti.
Borgarbúar geta athugað hvort gjaldtakan eigi við þeirra farartæki á vef Lundúnasamgangna, en almennt er hægt að miða við að það eigi við um mótorhjól sem eru eldri en árgerð 2007, bensínbíla sem eru eldri en árgerð 2006 og díselbíla sem eru eldri en árgerð 2015.
Hver sá sem er staðinn að því að reyna að komast hjá því að greiða gjaldið verður sektaður um 160 pund. Sem stendur er aðeins um að ræða svæðið í innstu miðborg Lundúna en frá og með 25. október 2021 verður stærð svæðisins margfölduð.