Leikkonan Allison Mack, sem þekktust er fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Smallville, játaði í dag fyrir dómstóli í New York-ríki að hafa lokkað konur til fylgis við Nxivm, mansalshring sem var dulbúinn sem eins konar sjálfshjálparhópur, og þvingað þær til að gerast kynlífsþrælar forsprakkans.
Greint er frá því á vef Guardian að Mack, sem er 36 ára gömul, hafi grátið er hún játaði glæpi sína og bað fórnarlömb forsprakkans, manns að nafni Keith Raniere, innilega afsökunar.
„Ég trúði því að Keith Raniere ætlaði sér að hjálpa fólki og ég hafði rangt fyrir mér,“ sagði Mack við dómara í Brooklyn í dag, en Raniere var handtekinn af bandarísku alríkislögreglunni í Mexíkó í mars í fyrra. Mack sagði dómararanum að hún vissi að hún „gæti og myndi verða betri manneskja,“ en áður hafði hún neitað sök í málinu.
Mack er ákærð fyrir að hafa aðstoðað Raniere við nýliðun í hópinn. Hún fékk konur til þess að verða félaga, en konurnar voru síðan misnotaðar á ýmsan hátt, bæði kynferðislega og sem vinnuafl.
Í dag viðurkenndi Mack fyrir dómaranum í málinu að hún hefði útvegað sér viðkvæmar upplýsingar og vafasamar myndir af alla vega tveimur konum, sem Mack hefði svo hótað að nota gegn þeim, ef þær framkvæmdu ekki kynlífsathafnir með Raniere.
Samfélagið, sem kallast Nxivm, átti að valdefla og styrkja þær konur sem gengu í það, en þess í stað var við lýði í því eins konar „húsbónda- og þrælakerfi“ þar sem konurnar áttu að stunda kynlíf með Raniere, auk þess sem þær voru merktar með upphafsstöfum hans.
Nxivm var eins konar pýramídakerfi þar sem Raniere var efstur og Mack efsta konan á eftir honum. Fyrir neðan þau voru svo eingöngu konur, og allar áttu þær að finna nýja félaga í samfélagið. Nýju félagarnir þurftu svo ekki aðeins að þjóna sínum „húsbónda“ heldur einnig þeim sem var fyrir ofan hann og svo koll af kolli.