Bann gegn fóstureyðingum gengur gegn stjórnarskrá Suður-Kóreu. Þetta er niðurstaða sögulegs dóms sem fallinn er í landinu og er þess krafist að banninu verði aflétt fyrir árslok 2020.
Bannið hefur verið í gildi frá 1953 og eiga konur sem fara í fóstureyðingu yfir höfði sér sektir og fangelsisvist, nema í tilfellum nauðgunar, sifjaspells eða ef meðgangan ógnar heilsu og velferð móðurinnar. Þá geta læknar sem framkvæma fóstureyðingar einnig verið dæmdir til fangelsisvistar.
Suður-Kórea er eitt fárra þróaðra landa þar sem fóstureyðingar eru glæpsamlegar, samkvæmt umfjöllun BBC, og samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem birtar voru á miðvikudag eru 58% þjóðarinnar hlynnt afnámi bannsins.