Hindrar ekki framsal til Bandaríkjanna

Stuðningsmaður Julian Assange heldur upp skilti til stuðnings honum við …
Stuðningsmaður Julian Assange heldur upp skilti til stuðnings honum við sendiráð Ekvador í London. AFP

Jen Robinson, einn af lögfræðingum Julian Assange stofnanda uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks, staðfesti á Twitter fyrir skemmstu að handtaka Assange tengist framsalsbeiðni frá bandarískum yfirvöldum. Ekki sé um að ræða brot á lausn gegn tryggingu líkt og áður hafi veirð haldið fram.

Guardian segir Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, munu lesa upp tilkynningu vegna handtöku Assange í neðri deild breska þingsins um tvöleytið í dag. Assange var handtekinn í morgun í sendiráði Ekvador í London, eftir að ríkistjórn Ekvador svipti hann pólitísku hæli.

Rithöfundurinn James Ball, sem hefur unnið með WikiLeaks, hafði áður sagt enga fullvissu fyrir því að Assange verði ekki framseldur til Bandaríkjanna.  Segir hann vandlega orðaða yfirlýsingu stjórnvanda í Ekvador um að þau hafi fengið fullvissu um að Assange verði ekki framseldur til ríkis þar sem hann eigi pyntingar eða dauðarefsingu yfir höfði sér eingöngu fela í sér að bandarísk yfirvöld hafi orðið að fallast á að hann yrði ekki dæmdur til dauða.

Uppljóstrarinn Edward Snowden hefur lýst yfir stuðningi við Assange.
Uppljóstrarinn Edward Snowden hefur lýst yfir stuðningi við Assange. AFP

Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden, er meðal þeirra sem hafa tjáð sig um handtöku Julian Assange, stofnanda uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks.

Snowden lýsti yfir yfir stuðning við Assange á Twitter og minnti þá fjölmiðla sem fjalla um mál Assange á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu þegar úrskurðað varðahald hans gerræðislegt og sagt það brot á mannréttindum. Sagði Snowden Sameinuðu þjóðirnar hafa „ítrekað gefið út yfirlýsingar þar sem hvatt er til þess að hann verði látinn laus – þar með talið mjög nýlega.“


 

AP-fréttaveitan hefur þá greint frá því að þeir sem sökuðu Assange um nauðgun í Svíþjóð hvetji nú sænska saksóknara til að krefjast framsals hans.

Maria Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins hefur einnig gagnrýnt handtöku Assange og segir á Twitter að með henni sé „hönd lýðveldisins þar þrýsta á háls frelsisins.“  

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert