Arnar Þór Ingólfsson
Julian Assange hefur verið fundinn sekur um að hafa ekki mætt fyrir dómara í Lundúnum á tilsettum tíma, 29. júní árið 2012. Þetta segir fréttamaður BBC sem tíst hefur beint úr dómsalnum í Westminster.
Assange mun næst mæta fyrir dómara 2. maí næstkomandi, en þá verður tekin fyrir framsalskrafa bandarískra yfirvalda, sem hafa ákært Assange og vilja hneppa hann í allt að 5 ára fangelsi fyrir að hafa framið samsæri um tölvuinnbrot ásamt uppljóstraranum Chelsea Manning árið 2010.
Samkvæmt bresku fréttaveitunni Press Association (PA) gæti Assange átt yfir höfði sér allt að 12 mánaða dóm í Bretlandi fyrir það að mæta ekki fyrir dómara, fyrir sjö árum, en ákvörðun um refsingu Assange fyrir þetta brot hefur ekki verið tekin og verður afgreidd á hærra dómsstigi, samkvæmt Daniel Sandford, fréttamanni BBC, sem er á vettvangi.
Samkvæmt Sandford sagði dómarinn í Westminster-dómshúsinu að það væri sökum þess að brot Assange hefði verið svo alvarlegt.
#Breaking Julian Assange has been found guilty of breaching his bail at Westminster Magistrates’ Court and faces a jail sentence of up to 12 months when he is sentenced at Crown Court
— Press Association (@PA) April 11, 2019