Reyna að losna við May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, stendur höllum fæti innan eigin flokks.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, stendur höllum fæti innan eigin flokks. AFP

Þing­menn í röðum breska Íhalds­flokks­ins vinna að því að reyna að koma Th­eresu May, for­sæt­is­ráðherra og leiðtoga flokks­ins, frá völd­um með því að breyta regl­um hans. Þar seg­ir að ekki sé hægt að lýsa yfir van­trausti á leiðtoga flokks­ins fyrr en tólf mánuðir eru liðnir frá því að hann stóðst slíkt van­traust síðast.

Þing­menn Íhalds­flokks­ins greiddu at­kvæði um van­traust á May í des­em­ber þar sem þriðjung­ur þeirra lýsti yfir van­trausti á hana. Þó May hafi staðist van­traustið þótti sig­ur­inn ekki nógu af­ger­andi. Talið er að síðan hafi stuðning­ur við hana inn­an þing­flokks­ins farið hratt minnk­andi. Einkum eft­ir að hún hóf viðræður við Jeremy Cor­byn, leiðtoga Verka­manna­flokks­ins, um mögu­lega lausn vegna fyr­ir­hugaðrar út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu sem gæti falið í sér áfram­hald­andi veru lands­ins í tolla­banda­lagi sam­bands­ins sem er stefna flokks Cor­byns.

Fjöldi þing­manna Íhalds­flokks­ins er sagður hafa haft sam­band við for­menn aðild­ar­fé­laga flokks­ins sam­kvæmt frétt breska dag­blaðsins Daily Tel­egraph og hvatt þá til þess að safna und­ir­skrift­um til þess að breyta um­ræddri reglu, en sam­kvæmt regl­um hans er það hægt fari 10 þúsund flokks­menn fram á það.

Kosn­inga­af­hroð varpi ekki skugga á nýj­an leiðtoga

Gripið var til þessa ráðs eft­ir að hóp­ur hátt­settra þing­manna Íhalds­flokks­ins ákváðu að fara ekki gegn May fyrr en eft­ir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar í Bretlandi 2. maí og kosn­ing­ar til Evr­ópuþings­ins 23. maí til þess að lík­legt af­hroð í þeim varpaði ekki skugga á mögu­leg­an nýj­an leiðtoga flokks­ins. Slíkt af­hroð gæti að þeirra mati enn­frem­ur verið það sem þurfi til þess að koma May frá völd­um.

Ljóst þykir að mik­il og vax­andi andstaða sé við for­ystu May bæði inn­an þing­flokks Íhalds­flokks­ins og meðal al­mennra flokks­manna. Ástæðan fyr­ir óánægj­unni með hana er einkum hvernig hún hef­ur haldið á mál­um varðandi út­göng­una úr Evr­ópu­sam­band­inu. Nú síðast samþykkti May að fresta henni þar til í lok októ­ber.

Fjöldi al­mennra flokks­manna hef­ur til að mynda neitað að taka þátt í kosn­inga­bar­áttu flokks­ins, meðal ann­ars með því að ganga í hús með kosn­inga­bæklinga og ræða við kjós­end­ur, og ýms­ir fjár­hags­leg­ir bak­hjarl­ar flokks­ins hafa neitað að styðja hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert