Omar al-Bashir, forseti Súdan, hefur sagt af sér embætti og viðræður eru nú í gangi um að millibilsstjórn muni taka að sér stjórn landsins á næstunni. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir heimildamönnum innan stjórnarinnar.
BBC segir enga tilkynningu enn hafa borist frá súdanska hernum, en að hennar sé vænst hvað úr hverju. Adel Mahjoub Hussein, ráðherra framleiðslu og efnahagsmála í Norður-Darfúr, sagði í samtali við Hadath-sjónvarpsstöðina í Dúbaí, að viðræður séu í gangi um „að herinn taki við stjórninni þegar Bashir lætur af völdum“. Eru hersveitir sagðar vera staðsettar víða um höfuðborgina Kartúm.
Reuters segir súdanska heimildamenn sína staðfesta þetta og segja Bashir, sem dvelur í forsetahöllinni, undir mikilli vernd hersins.
„Herinn mun flytja mikilvæga tilkynningu innan skamms. Verið tilbúin,“ sagði í yfirlýsingu sem lesin var í sjónvarpi landsins. Engar frekari útskýringar voru veittar, en BBC segir tugi þúsunda mótmælenda þegar vera farna að fagna falli Bahsirs á götum úti.
Mikil mótmæli hafa verið í landinu undanfarið. Bashir, sem er fyrrverandi fallhlífahermaður, settist á forsetastól í kjölfar valdaráns árið 1989 og hefur verið umdeildur forseti. Hann hefur m.a. verið ákærður af Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag vegna þáttar síns í þjóðarmorðunum í Darfúrhéraði í Súdan sem hófust árið 2003.
Reglulega hefur komið til mótmæla í landinu frá því í desember á síðasta ári og frá því um helgina fjölgaði verulega í hópi mótmælenda, sem m.a. settust að fyrir utan varnarmálaráðuneyti landsins, en forsetahöllin er í sama húsakjarna.
Þá kom til átaka í gær milli hermanna, sem voru að reyna að verja mótmælendur, og öryggisvarða og öryggislögreglu sem voru að reyna að tvístra hópnum. 11 manns hið minnsta létust í átökunum, þeirra á meðal sex hermenn.