Úr sendiráðinu eftir 2.487 daga

Julian Assange í lögreglubifreið þegar hann var handtekinn í morgun.
Julian Assange í lögreglubifreið þegar hann var handtekinn í morgun. AFP

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, á yfir höfði sér framsal til Bandaríkjanna og allt að fimm ára fangelsi eftir að ekvadorsk yfirvöld hleyptu bresku lögreglunni inn í sendiráð þeirra í London í morgun þar sem Assange var tekinn höndum.

Assange hafði dvalið í sendiráðinu í sjö ár en stjórnvöld í Ekvador tilkynntu honum í morgun að honum yrði ekki lengur veitt diplómatísk vernd. Assange hafði dvalið í sendiráðinu í 2.487 daga til að forðast framsal til Svíþjóðar vegna ásakana um kynferðisbrot.

Vilja Assange í fimm ára fangelsi

Eftir handtökuna var hann fund­inn sek­ur um að hafa ekki mætt fyr­ir dóm­ara í Lund­ún­um á til­sett­um tíma, 29. júní 2012. Fyrir það gæti hann átti yfir höfði sér árs fangelsi í Bretlandi. Assange mun næst mæta fyr­ir dóm­ara 2. maí, en þá verður tek­in fyr­ir framsalskrafa banda­rískra yf­ir­valda.

Bandarísk yfirvöld hafa ákært Assange og vilja hneppa hann í allt að fimm ára fang­elsi fyr­ir að hafa framið sam­særi um tölvu­inn­brot ásamt upp­ljóstr­ar­an­um Chel­sea Mann­ing árið 2010.

Chelsea Manning.
Chelsea Manning. AFP

„Enginn í Bretlandi er ofar lögum“

Skiptar skoðanir eru á handtöku Assange. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagðist fyrr í dag fullviss um að allt breska þingið fagnaði fréttunum. „Þetta sýn­ir að eng­inn í Bretlandi er ofar lög­um,“ sagði May.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, sagði að Assange hefði haldið starfsfólki sendiráðsins í gíslingu og að staðan hefði verið óþolandi fyrir starfsfólkið. Nú yrði tekið almennilega á málinu.

Jeremy Hunt.
Jeremy Hunt. AFP

Uppljóstranir gerðu Assange að skotmarki

Diane Abbott, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði að vinna Assange við að koma upp um það sem miður færi hefði sett hann í hættu á fangelsisvist í Bandaríkjunum. „Það eru uppljóstranir á borð við ólögleg stríð, fjöldamorð, morð á óbreyttum borgurum og spilling sem hefur gert Julian Assange að skotmarki,“ sagði Abbot.

Ýmsir réttindahópar og blaðamenn óttast um frelsi blaðamanna í kjölfar framsalskröfu Bandaríkjamanna, þar á meðal uppljóstrarinn Edward Snowden. Hann sagði handtökuna „myrkustu stund fjölmiðlafrelsis“.

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP

Dómarinn harðorður í garð Assange

Þegar Assange var leiddur fyrir dómara eftir handtökuna í morgun, gefið að sök að hafa ekki mætt fyrir dóm í London á tilsettum tíma í júní 2012, neitaði hann sök. Hann var fundinn sekur og dómarinn, Michael Snow, sagði að Assange „hegðaði sér eins og maður fullur aðdáunar á sjálfum sér sem sér ekkert nema eigin hagsmuni“.

Myndskeið af því þegar Assange var leiddur inn í lögreglubifreið í handjárnum í morgun sýna skeggjaðan mann sem hvatti Bretland til að streitast á móti. Hann hélt á bókinni History of the Nati­onal Secu­rity State eftir stjórnmálaskýrandann og rithöfundinn Gore Vidal þegar hann var leiddur út úr sendiráðinu.

Bókin sést greinilega í höndum Assange á myndinni.
Bókin sést greinilega í höndum Assange á myndinni. Skjáskot/Twitter

Reyndi að flýja inn í herbergið sitt

„Að minnsta kosti sex menn drógu Julian út og fleiri lögregluþjónar fylgdust með. Julian reyndi að tjá sig en honum var ýtt inn í bíl. Hann leit út fyrir að vera dasaður,“ sagði einn stuðningsmanna Assange, sem var vitni að handtökunni.

Samkvæmt frétt Guardian reyndi Assange að flýja inn í herbergi sitt í sendiráðinu þegar lögregluþjónar birtust þar. Þeir hafi þurft að halda Assange eftir að hann reyndi að forðast handtöku þar sem hann sagði aðgerðir lögregluþjóna ekki samkvæmt lögum.

Jennifer Robinson, lögmaður Assange, sagðist hafa óttast það síðan 2010 að hann gæti átt yfir höfði sér að verða framseldur til Bandaríkjanna. „Því miður kom í ljós í dag að við höfðum rétt fyrir okkur,“ sagði hún.

Vilja að mál í Svþíþjóð verði tekið upp að nýju

Lögmaður annarrar konunnar sem sakaði Assange um kynferðisbrot í Svíþjóð sækist eftir því að mál hans í Svíþjóð, sem var fellt niður fyrir tveimur árum, verði tekið upp að nýju, þar sem hann yrði lögsóttur fyrir nauðgun.

„Ég yrði mjög hissa og sorgmædd,“ sagði önnur konan í Svíþjóð, við Guardian, um mögulegt framsal Assange til Bandaríkjanna. „Fyrir mér hefur þetta aldrei snúist um neitt annað en misferli hans gagnvart mér og hinni konunni.“

Fengu nóg af Assange

Lenín Moreno, forseti Ekvadors, sagði að þarlend stjórnvöld hefðu misst þolinmæðina gagnvart Assange og þess vegna hefði verið ákveðið að veita honum ekki frekari diplómatíska vernd.

Lenin Moreno tjáði sig um Assange í dag.
Lenin Moreno tjáði sig um Assange í dag. AFP

„Hann var okkur stöðugt til vandræða. Hann sýndi yfirvöldum enga virðingu, sagði að við værum að njósna um hann og sakaði okkur um lygar. Hann sagði að við ynnum fyrir Bandaríkin,“ sagði Jaime Marchan, sendiherra Ekvadors í Bretlandi.

Bretlandsdeild Amnesty International var á meðal þeirra sem fordæma handtökuna. Talsmaður Amnesty sagði að ef Svíar myndu fara fram á framsal vegna ásakananna um kynferðisbrotin yrði að vera tryggt að Assange yrði ekki sendur í framhaldinu til Bandaríkjanna. „Þar er hætta á því að brotið yrði á mannréttindum hans,“ sagði talsmaðurinn.

Rafael Correa, fyrrverandi forseti Ekvadors, sakaði eftirmann sinn í embætti um að vera mesti svikari í sögu Ekvadors. 

Pamela Anderson.
Pamela Anderson. AFP

Leikkonan Pamela Anderson var á meðal þeirra sem gagnrýndu handtökuna harkalega en henni og Assange var ágætlega til vina. Hún sagðist á Twitter vera í áfalli og sakaði Bretland um að vera „tík Bandaríkjanna“ og bætti því við að Bretar þyrftu að beina athyglinni frá „Brexit-ruglinu“.

WikiLeaks sakaði ríkisstjórn Ekvadors í gær um að njósna um Assange. Þar var sagt að heimsóknir lækna og lögfræðinga innan veggja sendiráðsins undanfarið ár hefðu verið teknar upp á laun. 

Umfjöllun Guardian um atburði dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert