Vilja Assange í allt að fimm ára fangelsi

Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks og lögmaður uppljóstrunarsíðunnar Jennifer Robinson ræða …
Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks og lögmaður uppljóstrunarsíðunnar Jennifer Robinson ræða við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið í Westminster í dag. AFP

Dómsmálayfirvöld í Bandaríkjunum fara fram á það að Julian Assange, stofnandi og fyrrverandi ritstjóri WikiLeaks, verði hnepptur í allt að fimm ára fangelsi fyrir að hafa framið samsæri um tölvuinnbrot ásamt uppljóstraranum Chelsea Manning árið 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bandarískra dómsmálayfirvalda, en leynd hefur verið lyft af ákæru bandarískra yfirvalda á hendur Assange.

Bandarísk yfirvöld hafa farið fram á það við Breta að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna og situr Assange nú frammi fyrir dómara í Westminster í Lundúnum, en hann var handtekinn í sendiráði Ekvadórs í borginni í morgun eftir að stjórnvöld í Ekvadór ákváðu að hætta að veita honum pólitískt hæli. Assange hafði dvalið í sendiráðinu, undir verndarvæng Ekvadóra, í sjö ár.

Fylgst er með dómshaldinu í beinni útsendingu á vef Guardian. Assange sagðist rétt í þessu „ekki sekur“ um það, sem varð tilefni upprunalegrar handtöku hans kl. 10:15 að staðartíma í morgun, að hafa ekki mætt fyrir dómara á tilsettum tíma árið 2012. Dómari hefur þegar kveðið upp sinn dóm og dæmt Assange sekan, í því máli, samkvæmt fréttamanni BBC á staðnum.

Julian Assange veifaði til fjölmiðlamanna úr aftursæti lögreglubíls, er honum …
Julian Assange veifaði til fjölmiðlamanna úr aftursæti lögreglubíls, er honum var ekið úr sendiráði Ekvadórs og í Westminster-dómshúsið í dag. AFP

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag, það sem nú hefur verið staðfest, að hann teldi að ákæran á hendur Assange snerist um samstarf WikiLeaks við Manning árið 2010.

„Þetta snýr að starfi hans og Wiki­Leaks í blaðamennsku, að birta staðreynd­ir um stríðsglæpi, staðreynd­ir sem aug­ljós­lega þjóna al­manna­hags­mun­um að séu birt­ar,“ sagði Kristinn, sem tók við af Assange sem ritstjóri uppljóstrunarsíðunnar í fyrra.

Í tilkynningu yfirvalda vestanhafs kemur fram, að í ákæru á hendur Assange segi að hann hafi í marsmánuði árið 2010 lagt á ráðin um það ásamt Chelsea Manning að „hakka“ lykilorð sem veitti aðgang að leynigögnum bandarískra yfirvalda. Manning, samkvæmt ákærunni, hafði greiðan aðgang að tölvum hersins, enda starfaði hún þar sem sérfræðingur í leyniþjónustu hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert