Lögmaður konu sem sakaði Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, um nauðgun árið 2010 greindi frá því í dag að hún og skjólstæðingur hennar myndu fara fram á það við sænska saksóknara að rannsókn á málinu yrði hafin að nýju. Málið var látið niður falla fyrir tæpum tveimur árum.
„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sannfæra saksóknara um að hefja rannsókn að nýju þannig að Assange verði framseldur til Svíþjóðar og lögsóttur fyrir nauðgun. Á meðan málið er ekki fyrnt er von fyrir skjólstæðing minn,“ sagði lögmaðurinn, Elisabeth Massi Fritz, við AFP.
Fram kom í yfirlýsingu frá yfirsaksóknara í Svíþjóð að þar fylgdust menn með framvindu mála eftir að Assange var handtekinn í London í morgun. Hægt væri að taka málið upp aftur á meðan það væri ekki fyrnt en umrætt mál fyrnist um miðjan ágúst á næsta ári.
Meint brot átti sér stað í ágúst 2010. Konan sakaði Assange um að hafa haft mök við sig þar sem hún svaf án þess að nota smokk þó hún hafi ítrekað neitað honum um það.
Assange hefur ávallt neitað þeim ásökunum.