Fyrrverandi slóvaskur hermaður hefur játað að hafa myrt rannsóknarblaðamanninn Jan Kuciak og unnustu hans, Martina Kusnirova. Þau fundust látin á heimilinu sínu í febrúar í fyrra.
Miroslav Marcek hefur ásamt þremur öðrum, sem allir sitja í gæsluvarðhaldi, verið ákærður fyrir morðið á parinu. Marcek viðurkennir að hafa skotið parið og að hafa farið fyrir hópnum sem sá um morðin.
Þá hefur Marian Kocner, umdeildur slóvaskur viðskiptamógúll, verið ákærður fyrir að fyrirskipa morðið.
Tugþúsundir Slóvaka hafa mótmælt aðkomu stjórnvalda frá því að Kuciak og unnusta hans voru myrt. Robert Fico, þáverandi forsætisráðherra Slóvakíu, sagði af sér í mars í fyrra vegna málsins.
Saksóknari segir að Kocner hafi látið myrða Kuciak og unnustu hans og ástæðan hafi verið störf Kucias en Kocner var framkvæmdastjóri fyrirtækis sem lokaði fyrir tveimur árum. Kocner var í varðhaldi þegar hann var ákærður, 8. mars, vegna efnahagsbrota. Síðasta greinin sem birtist eftir Kuciak meðan hann lifði var um Kocner og meinta spillingu og svindl hans.
Kuciak var að rannsaka spillingu í stjórnkerfi landsins þegar hann var myrtur og var hann að skrifa grein um tengsl ráðgjafa forsætisráðherrans við ítölsku mafíuna. Greinin birtist að honum látnum.
Lögreglan fylgir nú eftir nýjum vísbendingum og leitar að vopnum eða öðrum munum sem gætu nýst við rannsókn málsins í á í grennd við borgina Velka Maca, þar sem Kucnier var búsettur.