Yfir 750 dauðsföll en ekki neyðarástand

Heilbrigðisstarfsfólk vinnur í kapp við tímann við að bólusetja íbúa …
Heilbrigðisstarfsfólk vinnur í kapp við tímann við að bólusetja íbúa í Austur-Kongó gegn ebólu en átök og árásir uppreisnahópa hafa gert þeim erfitt fyrir. AFP

1.206 manns hafa smitast af ebólu og 764 látið lífið í faraldri sem hefur geisað í Austur-Kongó frá því í ágúst. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur þó ekki þörf á að lýsa yfir neyðarástandi, að minnsta kosti ekki um sinn.

Heilbrigðisstarfsfólk vinnur í kapp við tímann við að bólusetja íbúa í landinu en átök og árásir uppreisnahópa hafa gert þeim erfitt fyrir. Þá segir í yfirlýsingu Lækna án landamæra að það sé öryggissveitum landsins um að kenna að ekki hafi tekist að ná stjórn á faraldrinum þar sem þær eigi í „eitruðu“ sambandi við marga íbúa landsins. 

Sérfræðingar vara við að erfitt geti reynst að ná tökum á ástandinu þar sem sífellt verr gengur að ná yfirsýn yfir smitaða og þá sem þeir komast í snertingu við sökum harðnandi átaka á svæðinu.

Yfirlýsing neyðarástands myndi í raun engu breyta

Prófessor Robert Steffen, formaður neyðarnefndar um ebólufaraldurinn hjá WHO, segir hins vegar að yfirlýsing neyðarástands á svæðinu myndi ekki breyta neinu. „En það þýðir ekki að við getum hallað okkur aftur og slakað á,“ segir Steffen. Þörf sé á auknu fjármagni til að koma í veg fyrir alþjóðlega lýðheilsuógn. Þá segir hann að stofnunin hafi einungis fengið helming þess fjármagn sem þarf til að takast á við faraldurinn.

Fyrstu smitin greindust í Norður-Kivu héraði í ágúst í fyrra en hefur nú einnig greinst í Ituri-héraði. Þetta er í fyrsta skipti í 40 ár sem ebóla kemur upp í landinu. Litlar líkur eru taldar á því að faraldurinn nú geti breiðst út á heimsvísu. 

Bóluefni eru aðgengilegri nú í fyrri ebólufaröldrum, en þrátt fyrir það hafa 30 heilbrigðisstarfsmenn látið lífið og 85 smitast, sem dregur á sama tíma úr getunni til að takast á við faraldurinn.

Dr. Jeremy Farrar, yfirmaður Wellcome-góðgerðarstofnunarinnar, segir að viðbragðsteymin í Austur-Kongó þurfi á öllum þeim stuðningi að halda sem kostur er á, ekki síst frá stjórnmálaöflum.

Neyðarástandi vegna ebólu var síðast lýst yfir vegna ebólufaraldurs í Vestur Afríku 2013-2016 þegar yfir 11 þúsund lét­ust í ebólu-far­aldri. 2016 var einnig lýst yfir neyðarástandi vegna Zika-veirunnar. 

Starfs­menn UNICEF fá þjálf­un í að meðhöndla fólk smitað af …
Starfs­menn UNICEF fá þjálf­un í að meðhöndla fólk smitað af ebólu­veirunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert