Aisha Musa Maina kafar ofan í stóran, gamlan, poka í leit að hlutum sem tilheyra dóttur hennar, Hauwu. Hauwa er ein af skólastúlkunum sem var rænt í Nígeríu fyrir fimm árum að vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. Hún á fáa hluti til minningar um dóttur sína, aðallega gamla pappíra sem eru gulnaðir og rykugir, skólaskírteini og eina litla mynd.
Mannránið olli Aishu og fjölskyldunni svo miklum þjáningum og svo mikilli sorg að það er engu líkara en að þeim hafi öllum verið rænt, segir Aisha í samtali við blaðamann AFP-fréttastofunnar.
14. apríl árið 2014 réðst hópur vopnaðra manna inn í Chipbok-heimavistarskólann og rændi þaðan 276 nemendum á aldrinum 12-17 ára. 57 þeirra tókst að flýja með því að stökkva af bílum sem fluttu þá í burtu.
Mannránið var fordæmt um allan heim og varð að stórmáli í forsetakosningum í Nígeríu þar sem Muhammadu Buhari fór með sigur. Hann hét því að sigra Boko Haram og að frelsa stúlkurnar.
Eftir samningaviðræður við Boko Haram var 107 stúlkum sleppt í skiptum við fanga.
Hauwa er ein af þeim 112 stúlkum sem engar fréttir hafa borist af. Fjölskylda hennar veltir því fyrir sér hvort hún sé enn á lífi eða hvort hún hafi farist í áhlaupi hersins á búðir hryðjuverkasamtakanna.
Hún gæti einnig hafa soltið í hel eða látist úr sjúkdómum þar sem herinn hefur gert allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir að vistir nái til hryðjuverkasamtakanna í norðurhluta landsins. Hún gæti einnig hafa neyðst til að ganga til liðs við samtökin.
Í myndbandi sem Boko Haram birti í janúar í fyrra mátti sjá fjórtán konur sem sögðust vera úr hópnum sem var rænt. Þrjár þeirra héldu á börnum. Í myndbandinu sögðu þær fjölskyldum sínum að þær myndu ekki snúa aftur heim. Það væri leiðtoga Boko Haram, Abubakar Shekau, að þakka. Hann hefði gift þær. „Við erum Chibok-stúlkurnar sem þið grátið yfir en í guðs bænum, við munum ekki snúa aftur til ykkar.“
Musa Maina, faðir Hauwu, segist ekkert vita um örlög dóttur sína en að hann haldi þó enn í vonina um að hún sé á lífi. „Við heyrðum að einhverjir foreldrar hefðu fengið dætur sínar til sín en okkar er enn ekki komin heim. Við höfum ekki tapað voninni og við biðjum ríkisstjórnina um að halda áfram af krafti að ná stúlkunum okkar heim.“
Aðrir hafa smám saman misst þá von að fá dætur sínar heim, heilar á húfi. Bílstjórar á stórum gatnamótum í borginni Lagos eru hættir að veita myndum af stúlkunum sem þar hanga athygli.
Fyrir fimm árum varð herópið „færið okkur stúlkurnar til baka“ (e. Bring back our girls) útbreitt á samfélagsmiðlum um heim allan. Síðan þá hafa fleiri óhæfuverk verið unnin og enn fleiri eiga um sárt að binda. Boko Haram hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu mánuði eftir að hafa veikst nokkuð er nýr forseti tók við um ári eftir mannránið mikla. Hann var svo endurkjörinn forseti í febrúar.
Samtök sem tengjast bæði Boko Haram og Ríki íslams hafa gert fjölmargar mannskæðar árásir í Nígeríu upp á síðkastið og ma.a. fellt hundruð hermanna. Sameinuðu þjóðirnar segja að yfir þúsund öðrum börnum hafi verið rænt í Nígeríu frá árinu 2013. Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, taldi árið 2016 að Boko Haram hefði rænt yfir 10 þúsund drengjum á nokkurra ára tímabili. 190 milljónir manna búa í Nígeríu.
Á einum áratug hafa átökin við Boko Haram kostað 27 þúsund manns í Nígeríu lífið. Um tvær milljónir manna hafa flúið heimili sín og geta enn ekki snúið aftur. Átökin hafa einnig borist til nágrannaríkjanna, m.a. Tjad, Níger og Kamerún.