30 milljarðar í bætur fyrir þurrk

Norskir bændur hafa litla ástæðu til að sleikja út um …
Norskir bændur hafa litla ástæðu til að sleikja út um eftir að hafa fengið samanlagt 30 milljarða í bætur fyrir þurrkatíðina í fyrra. Hjá mörgum þeirra hrukku bæturnar ekki fyrir svimandi kostnaði við að kaupa hey og kraftfóður um langan veg. Ljósmynd/Klimasmart landbruk

Þegar frestur norskra bænda til að sækja um bætur, fyrir algjöran uppskerubrest í einni lengstu samfelldu hitabylgju norskri síðan mælingar hófust, rann út 1. nóvember í fyrra höfðu 14.419 bændur lagt fram kröfu um slíkar bætur, greindi landbúnaðarráðuneytið frá á sínum tíma.

Upp úr áramótum tóku peningarnir að streyma úr ríkiskassanum til bænda sem í haust vissu varla sitt rjúkandi ráð en hafði þá fjöldi þeirra neyðst til að bregða slátrunarhnífnum á bústofn sinn vegna fóðurskorts og gall grátur og gnístran tanna við úr sveitum landsins er gripið var til örþrifaráða enda fáum ljúft að fórna skepnum sínum vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna.

„Þetta má ekki endurtaka sig í ár, við förum ekki gegnum annað svona sumar sé okkur ætlað að framleiða mat handa norsku þjóðinni,“ sagði Kristina Hegge, formaður Bændasamtaka Oppland-fylkis, í kvöldfréttum norska ríkisútvarpsins nú fyrir skömmu og talaði umbúðalaust.

Hitametin riðuðu til falls

Nú hafa rúmlega 13.000 bændur fengið bætur greiddar út fyrir ótíðina, sem fjöldi Norðmanna fagnaði þó á ströndum og útiveitingahúsum nánast allt sumarið 2018, og riðaði margt Noregsmetið til falls, til dæmis kviknuðu 2.079 skógareldar í Noregi sumarið 2018 og eyddi slökkvilið samanlagt 71.313 klukkustundum í að ráða niðurlögum þeirra.

Í maímánuði einum seldust 5,5 milljónir lítra af ís hjá framleiðandanum Hennig-Olsen einum, drykkjarvöruframleiðandinn Ringnes ók að meðaltali út tveimur milljónum lítra af bjór og gosdrykkjum á dag og raftækjaverslunin Elkjøp seldi 416% fleiri viftur en í sama mánuði 2017. Þá áttu Bergen og Ósló í hatrammri innbyrðis keppni um hæsta hitastig í maímánuði frá upphafi mælinga og bakaði Bergen höfuðborgina naumlega með 31,2 gráðum á móti 31,1 í Ósló.

Veðurspár á borð við þessa blöstu við Norðmönnum vikum saman …
Veðurspár á borð við þessa blöstu við Norðmönnum vikum saman sumarið 2018 og féllu mörg hitametin víða um land. Ljósmynd/Norska veðurstofan, Meteorologisk institutt

Fyrir suma bændur eru bæturnar þó dropi í hafið. Stian Haupberg, bóndi í Redalen í Gjøvik í Oppland-fylki, fékk 320.000 norskar krónur, 4,5 milljónir íslenskra króna, sem ekki hrökk til að bæta honum þau útgjöld sem hann tók á sig til að kaupa skepnum sínum hey og kraftfóður. „Hér var allt þurrt og sviðið fram í júlí og ágúst. Þær voru margar hugsanirnar sem flugu gegnum huga mér þá,“ sagði Haupberg í samtali við NRK í dag.

NRK segir norska bændur aldrei í sögunni hafa fengið aðrar eins bætur fyrir búsifjar enda neyddist fjöldi bænda til að kaupa fóður langt að, þar á meðal frá Íslandi en Íslendingar seldu norskum bændum hey fyrir 250 milljónir íslenskra króna.

NRK

Sunnmørsposten

E24

Frétt norska landbúnaðarráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert