Mótmæli hafa staðið yfir í Súdan í um fjóra mánuði og urðu þau í síðustu viku til þess að forseti landsins til þriggja áratuga, Omar al-Bashir, var hrakinn frá völdum.
En mótmælin halda áfram og m.a. standa setuverkföll, sem hófust þann 6. apríl fyrir utan höfuðstöðvar hersins í höfuðborginni Khartoum, enn yfir.
Í fyrstu var það krafa mótmælenda að fá stuðning hersins til að koma Bashir frá völdum. Frá því að það svo varð að veruleika hafa þeir krafist þess að herstjórnin, sem nú er við völd, fari að kröfum „byltingar“ þeirra.
Hér að neðan má fræðast um þær lykilkröfur sem mótmælendur hafa sett fram undir hatti samtakanna Bandalag um frelsi og breytingar. Setuverkföllum lýkur ekki fyrr en kröfunum verður mætt.
Bandalag frelsis og breytinga hefur kynnt herstjórninni þessar kröfur en viðræður eru ekki enn hafnar. Samtök starfsmanna, m.a. kennara, lækna og verkfræðinga, fór í fyrstu fyrir mótmælunum. Þau hafa hvatt til þess að setuverkföllum verði framhaldið „þar til kröfum byltingarinnar verði mætt“.
Herforinginn sem leiðir herstjórnina, Abdel Fattah al-Burhan, hefur heitið því að leysa uppræta stjórn Bashirs. Stjórnin segir Bashir í varðhaldi en ekki hefur verið gefið upp hvar hann er í haldi og hvort fleiri leiðtogar flokksins hafa verið handteknir.
Herstjórnin segist hins vegar ekki ætla að framselja Bashir úr landi en hann er eftirlýstur af alþjóðaglæpadómstólnum vegna gruns um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni. Bashir hefur neitað sök.