Frakkar ætla að bjóða arkitektum hvaðanæva að úr heiminum til að koma með tillögur að endurbyggingu turnspíru Notre Dame-dómkirkjunnar sem eyðilagðist í eldsvoðanum í fyrradag. Þetta segir forsætisráðherrann, Edouard Philippe.
Markmiðið með samkeppninni er að fá Notre Dame nýja turnspíru sem er aðlöguð að tækni og áskorunum okkar tíma,“ sagði Philippe í samtali við fréttamenn í dag. Í gær hét Emmanuel Macron forseti landsins því að kirkjan yrði endurbyggð „jafnvel enn fegurri en áður“ á innan við fimm árum.
Þúsundir ferðamanna og Parísarbúa horfðu angistarfullir á það á mánudag er eldurtungur umluku hina 850 ára gömlu kirkju. Fimmtán klukkustundir tók að slökkva eldinn að fullu og eru skemmdir á kirkjunni gríðarmiklar.
Fljótlega eftir að slökkviliðsmenn höfðu slökkt í síðustu glæðunum fóru vilyrði fyrir fjárgjöfum til endurbyggingarinnar að streyma inn. Á einum sólarhring höfðu 800 milljónir evra safnast, m.a. frá auðkýfingum og stórfyrirtækjum.