Notre Dame var ótryggð

Fram kemur í Le Monde að Notre Dame hafi ekki …
Fram kemur í Le Monde að Notre Dame hafi ekki verið tryggð og að kostnaður við endurgerð kirkjunnar gæti orðið um 136 milljarðar íslenskra króna. AFP

Notre Dame kirkj­an í Par­ís var ekki tryggð þegar kviknaði í henni, að því er seg­ir í um­fjöll­un Le Monde. Ástæðan er sögð stefna franskra stjórn­valda um að trú­ar­leg­ar bygg­ing­ar í um­sjá þeirra séu aðeins tryggðar með rík­is­ábyrgð og mun því þorri kostnaðar við lag­fær­ingu kirkj­unn­ar falla á rík­is­sjóð Frakk­lands.

Franska ríkið er „sinn eig­in trygg­inga­sjóður hvað varðar trú­ar­bygg­ing­ar í eigu þess,“ seg­ir í svari sam­taka franskra trygg­inga­fé­laga (Fé­dérati­on française de l’ass­urance) við fyr­ir­spurn Le Monde. Þá seg­ir jafn­framt að ríkið sé eig­andi allra dóm­kirkna sem byggðar hafa verið fyr­ir 1905.

„Á trygg­inga­máli þýðir að tryggja si sjálf­ur, að þú sért ekki tryggður,“ seg­ir Fredric Durot, for­stjóri tjónsviðs hjá trygg­inga­fé­lag­inu Siaci Saint Hon­ore. Mun því megnið af kostnaði við end­ur­gerð kirkj­unn­ar falla á ríkið og hafa trygg­inga­sér­fræðing­ar talið að sá kostnaður geti numið allt að einn millj­arð evra, jafn­v­irði 136 millj­arða ís­lenskra króna.

Stefn­an um að tryggja ekki op­in­ber­ar bygg­ing­ar hjá trygg­inga­fé­lög­um var sett í reglu­gerð árið 1889 og var ástæðan sögð vera að hag­kvæm­ara væri fyr­ir rík­is­sjóð að standa und­ir kostnaði í kjöl­far skemmda. Regl­an var tek­in til skoðunar í skýrslu frá 2001 og hef­ur orðið lít­il breyt­ing á stefn­unni, en nokkr­ar stór­ar bygg­ing­ar hafa verið tryggðar að hluta eins og Eif­fel turn­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert