Sektaðir um 1,8 milljarða fyrir skógareld

Saksóknarar röktu slóð eldsins að lóð afans.
Saksóknarar röktu slóð eldsins að lóð afans. AFP

Tveir 22 ára háskólanemar hafa verið sektaðir um 13,5 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 1,8 milljörðum íslenskra króna, fyrir að hafa komið af stað skógareldi í lok desember á síðasta ári.

Nemarnir voru að grilla við hús í eigu afa annars þeirra á Norður-Ítalíu þegar eldurinn braust út 30. desember. Varði hann í nokkra daga og á þeim tíma fuðruðu upp um þúsund hektarar af skóglendi. Á um hundrað hekturum af því svæði munu skemmdirnar vera óafturkræfar, að því er fram kemur í umfjöllun BBC um málið

Upphæð sektarinnar var reiknuð af yfirvöldum á svæðinu og var miðað við þær skemmdir sem áætlað er að hafi orðið af völdum eldsins.

„Við erum raunverulegu fórnarlömbin“

Í viðtali í ítalska blaðinu La Stampa segir annar nemanna að þeir séu einungis blórabögglar í málinu. Þeim þyki virkilega leitt að eldurinn hafi orðið en hann hafi þó átt uppruna að rekja víðar en til þeirra.

„Við erum blórabögglar vegna elds sem er ekki hægt að útskýra. Við erum raunverulegu fórnarlömbin í þessari sögu,“ segir hann í viðtalinu.

Saksóknarar röktu slóð eldsins að lóð afans og segja glóðir frá grillinu hafa komið eldinum af stað, en virkilega þurrt var á svæðinu á þessum tíma. Ítalskir fjölmiðlar herma að nemarnir gætu einnig verið kærðir af eigendum landsvæða sem urðu eldinum að bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert