Fjöldi mislingasmita á heimsvísu jókst um 300% fyrsta ársfjórðung 2019 borið saman við sama tímabil í fyrra, að því er fram kemur í tölum alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem gefnar voru út mánudag. Er þetta merki um áframhaldandi fjölgun tilfella, en þeim hefur fjölgað stöðugt undanfarin tvö ár.
Mislingatilfellum fjölgar stöðugt í öllum heimshlutum og hafa orðið umfangsmeiri faraldrar í fátækum ríkjum sem hafa leitt til fjölda dauðsfalla, flestum þeirra á ungum börnum. WHO segir stærstu faraldrana geysa í Kongó, Eþíópíu, Georgíu, Kasakstan, Kirgístan, Madagaskar, Búrma (Mjanmar), Súdan og Úkraínu.
Síðustu mánuði hefur mislingasmitum einnig fjölgað í ríkjum með hátt bólusetningarhlutfall eins og í Bandaríkjunum, Ísrael, Taílandi og Túnis. Í þessum ríkjum hafa mislingar breiðst út hratt meðal fólks sem er ekki bólusett fyrir sjúkdómnum.
Þá komu upp nokkur tilfelli hér á landi á fyrsta fjórðungi þessa árs.
Mislingar eru meðal þeirra sjúkdóma með mestu smithættuna í heiminum og geta haft alvarlegar afleiðingar. Hægt er hins vegar að komast hjá smiti að fullu með bólusetningu í tveimur skömmtum.
Í mörg ár hefur bólusetningarhlutfall fyrsta skammts haldist í 85% og í tilfelli seinni skammtar hefur hlutfallið farið hækkandi, en það er nú í 67%. Til þess að koma í veg fyrir faraldra þarf hlutfallið að vera 95% og segir WHO að núverandi ástand valdi því að margir einstaklingar og heilu samfélögin séu í áhættuhópi.