Blaðamenn búa víða við ótta

Kort sem sýnir stöðu fjölmiðlafrelsi, eins og það lítur út …
Kort sem sýnir stöðu fjölmiðlafrelsi, eins og það lítur út á matskvarðanum World Press Index fyrir árið 2019. Skjáskot af vef Blaðamanna án landamæra

Ísland er í fjórtánda sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi í ríkjum heim, samkvæmt nýjum matskvarða Blaðamanna án landamæra, The World Press Freedom Index, sem hefur verið birtur. Ísland fer niður um eitt sæti á milli ára og raunar hefur Ísland færst niður um alls sex sæti á listanum frá því árið 2012, að sögn Blaðamanna án landamæra vegna „súrnandi“ samskipta stjórnmálamanna og blaðamanna.

Norðmenn eru efstir á listanum, Finnar aðrir og Svíar falla niður í þriðja sætið, vegna aukinnar netáreitni í garð blaðamanna þar í landi. Hollendingar falla sömuleiðis niður um eitt sæti, niður í það fjórða, að sögn Blaðamanna án landamæra sökum þess að tveir fréttamenn þar í landi sem fjallað hafa um skipulagða glæpastarfsemi þurfa að vera undir stanslausu verndareftirliti lögreglu.

Túrkmenistan er að mati Blaðamanna án landamæra það land þar sem fjölmiðlafrelsi er minnst og vermir 180. sæti listans, sem hefur verið þaulsetið af Norður-Kóreumönnum undanfarin ár, en Norður-Kórea er nú næstneðst. Næstu lönd þar fyrir ofan eru Erítrea, Kína og Víetnam.

Svona er staðan. Einungis 24% ríkja heims hafa gott eða …
Svona er staðan. Einungis 24% ríkja heims hafa gott eða viðunandi fjölmiðlafrelsi, samkvæmt Blaðamönnum án landamæra. Mynd/Blaðamenn án landamæra

Rússland situr í 149. sæti listans og í yfirferð Blaðamanna án landamæra segir að stjórnvöld í Kremlín hafi notað handtökur, tilhæfulausar leitir og forna löggjöf til þess að auka þrýsting sinn á sjálfstæða fjölmiðla og netmiðla. Venesúela situr sæti ofar, en þar hafa blaðamenn mátt sæta handtökum og ofbeldi af hálfu öryggissveita Maduro-stjórnarinnar.

Varhugaverð staða í Bandaríkjunum og víðar

Bandaríkin sitja í 48. sæti listans. Þar, eins og víðar, hafa viðhorf í garð blaðamanna orðið verri – og það nær að sögn Blaðamanna án landamæra út fyrir orðræðu Donalds Trump forseta gegn fjölmiðlum.

„Aldrei áður hafa bandarískir blaðamenn fengið jafn margar líflátshótanir eða leitað í jafn miklum mæli til einkarekinna öryggisfyrirtækja til þess að vernda sjálfa sig. Hatur á fjölmiðlum er nú orðið svo mikið að maður gekk inn á skrifstofur Capital Gazette í Annapoli í Maryland-ríki í júní 2018 og hóf skothríð, drap fjóra blaðamenn og einn starfsmann blaðsins til viðbótar.“

Víða hefur orðræða stjórnmálamanna gegn fjölmiðlafólki minnkað frelsi fjölmiðlafólks til að vinna vinnuna sína og öryggi þeirra í starfi. Blaðamenn án landamæra segja að orðræða stjórnmálafólks gegn fjölmiðlum hafi leitt til aukinnar tíðni alvarlegra ofbeldisverka sem beinast að fjölmiðlum – sem hafi skapað ótta hjá fjölmiðlafólki í mörgum ríkjum heims.

Umfjöllun Blaðamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi árið 2019

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert