„Borgaraleg óhlýðni er nauðsynleg“

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg.
Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg. AFP

Umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg hyggst slást í hóp mótmælenda í Lundúnum þegar hún heimsækir borgina í næstu viku, Guardian greinir frá þessu. Greta er 16 ára stofnandi Loftslagsverkfallsins sem ungmenni um allan heim hafa tekið þátt í. Meiri harka er í mótmælunum í Lundúnum, að sögn formanns Lands­sam­taka ís­lenskra stúd­enta, heldur en í Loftslagsverkfallinu. Mótmælendur hafa truflað samgöngur og sumir hverjir verið færðir burt af lögreglu.

„Ég myndi endilega vilja taka þátt í mótmælunum á meðan ég er í London ef tími gefst til og mótmælin standa enn yfir. Ég held að þetta sé ein mikilvægasta hreyfing okkar tíma. Borgaraleg óhlýðni er nauðsynleg til þess að draga athygli að viðvarandi umhverfishremmingum,“ segir Greta.

Greta mun einnig heimsækja breska þingið og ræða við þingmenn, þar á meðal þingkonu Græningja, Caroline Lucas, leiðtoga Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, og umhverfisráðherra Bretlands, Michael Gove. 

Mótmæla í viku til viðbótar

Heimsókn Thunberg rímar við auknar áhyggjur Breta af loftslagsmálum. Á síðustu misserum hafa forstjóri enska bankans, hópar vísindamanna og prestar kallað eftir róttækari aðgerðum í þeim efnum.

Að mótmælunum í Lundúnum standa grasrótarsamtökin Upp­reisn gegn út­rým­ingu (Ext­incti­on Re­belli­on) en mótmælin hafa staðið síðan á mánudag. 500 mótmælendur hafa verið handteknir en grasrótarsamtökin hafa þó heitið því að mótmæla í eina viku í viðbót. Mótmæli skipulögð af hópnum hafa einnig verið haldin í New York, Haag og fleiri borgum. 

Í samtali við mbl.is sagði formaður Lands­sam­taka ís­lenskra stúd­enta að áhugi væri fyrir því að halda sambærileg mótmæli hérlendis þó að Landssamtök íslenskra stúdenta hygðust ekki skipuleggja þau.  

Tími ungu kynslóðarinnar kominn

Thunberg var ein af þeim sem skrifaði undir yfirlýsingu sem varð til stofnunar Uppreisnar gegn útrýmingu. Samtökin ætla sér að styrkja mótmæli sín um helgina og vonast til þess að enn fleiri láti sjá sig vegna blíðskaparveðurs og lokunardags banka. Þá er fyrirhuguð lautarferð á hraðbraut á mánudag en talsmaður mótmælenda, Ronan McNern, segir að stuðningur Thunberg sé sérstaklega mikilvægur. 

„Hún er ofboðslega mikilvæg og ég þakka henni fyrir frá mínum dýpstu hjartarótum. Fólk ætti ekki að vara sig á okkur heldur á loftslagsverkföllunum og ungu kynslóðinni. Nú er þeirra tími kominn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert