„Erum við síðasta kynslóðin?“

Við komuna til Heathrow í morgun komu mótmælendur sér fyrir …
Við komuna til Heathrow í morgun komu mótmælendur sér fyrir á einu fjölfarnasta hringtorgi við flugvöllinn og drógu upp fána með áletruninni: „Eum við síðasta kynslóðin?“ Ljósmynd/Twitter

Hópur mótmælenda, allt umhverfissinnar fæddir 1990 eða síðar, hefur fært sig frá helstu götum Lundúna yfir til Heathrow-flugvallar. Að mót­mæl­un­um, sem hófust á mánudag, standa grasrót­ar­sam­tök sem kalla sig Upp­reisn gegn út­rým­ingu (Ext­incti­on Re­belli­on).

„Ég er hér af því að ég elska ykkur og óttast um framtíð ykkar“

Við komuna til Heathrow í morgun komu þau sér fyrir á einu fjölfarnasta hringtorgi við flugvöllinn og drógu upp fána með áletruninni: „Eum við síðasta kynslóðin?“ Fánan breiddu þau yfir götuna við hringtorgið til að stöðva bílaumferð.

Á þriðja tug lögreglumanna eru á flugvellinum og hefur mótmælendum verið hótað handtöku fari þeir ekki eftir fyrirmælum lögreglu að færa sig frá umferðargötum. Mótmælendur segjast tilbúnir til að taka áhættuna, allt til að undirstrika hætturnar sem fylgja loftslagsbreytingum.

„Ég er hér af því að ég elska ykkur og óttast um framtíð ykkar, og framtíð mína,“ segir Oscar Idle, 17 ára mótmælandi, í samtali við The Guardian.

Lögreglan fjarlægði um 20 mótmælendur af götunni sem leiðir inn á flugvöllinn yfir á nærliggjandi gangstétt. „Við erum stöðugt kýld í andlitið af sannleikanum, en enginn er að gera neitt,“ segir Savannah Lovelock, 19 ára nemi við háskólann í Falmouth. Fjórir mótmælendanna neita af færa sig og sátu sem fastast í um klukkustund, uns þeir létu gott heita.

Yfir 500 manns hafa verið hand­tekn­ir og meira en þúsund lög­reglu­menn hafa verið að störf­um í tengsl­um við mót­mæl­in. Mót­mæl­end­ur hafa reynt að loka um­ferðargöt­um og brúm, með aðgerðum þar sem hvatt er til borg­ara­legr­ar óhlýðni og hafa sam­göng­ur um hluta höfuðborg­ar­inn­ar lam­ast. Segj­ast mót­mæl­end­ur ekki hætta fyrr en stjórn­völd hlusti á kröf­ur þeirra.  

Að mót­mæl­un­um standa grasrót­ar­sam­tök sem kalla sig Upp­reisn gegn út­rým­ingu …
Að mót­mæl­un­um standa grasrót­ar­sam­tök sem kalla sig Upp­reisn gegn út­rým­ingu (Ext­incti­on Re­belli­on) Hóp­ur­inn var sett­ur á lagg­irn­ar í fyrra og hef­ur fylgi hans auk­ist hratt síðan. Kröf­ur hans eru m.a. þær að stjórn­völd grípi þegar í stað til aðgerða til að sporna við hætt­um sem steðji að líf­fræðileg­um fjöl­breyti­leika og þar með öll­um vist­kerf­um heims­ins. AFP

Ekkert gagn af háskólagráðu ef framtíðin er í hættu

Mótmælendurnir segja að tilgangurinn með aðgerðum dagsins sé ekki að hindra flugumferð heldur að tefja umferð í átt að flugvellinum reglulega, til að vekja athygli á baráttumálinu: Afleiðingum loftslagsbreytinga og mikilvægi þess að bregðast við.

„Ég ætti ekki að vera hér, ég ætti að vera að læra fyrir lokapróf,“ segir Talia Wodin, 19 ára nemi við Goldsmith-háskólann. „En ég verð að vera hér. Hvaða gagn er af gráðu ef það verður mögulega engin framtíð?“

Þögul mótmæli á Íslandi

Börn og unglingar hafa síðustu átta föstudaga fylkt liði á Austurvöll og á því verður engin breyting í dag, en verkfallið verður með örlítið breyttu sniði sökum föstudagsins langa. Vegna páskafrís eru foreldrar, systkini, skyldmenni og vinir á öllum aldri eindregið hvött til að mæta með íslenskum ungmennum og sýna þeim þannig stuðning í verki.

Af virðingu við föstudaginn langa verður verkfallið í dag þögult. Sest verður við Alþingishúsið klukkan 12 á hádegi og stjórnvöldum, atvinnulífinu og almenningi sýnd skýr skilaboð um að loftslagsvandinn fari ekki í frí þó að páskar standi yfir, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landssamtökum íslenskra stúdenta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert