Auðjöfur játar sök í mansalsmáli

Clare Bronfman.
Clare Bronfman. Af Facebook-síðu Bronfman

Clare Bronfman, sem er fertugur erfingi Seagram-áfengisframleiðandans, hefur játað sök í mansalsmáli. Hún var ákærð fyrir að styrkja samtökin Nxivm um rúmlega 100 milljónir dala, en samtökin, sem er líkt við sértrúarsöfnuð, eru sögð tengjast kynlífsmansali.

Bronfman játaði að hafa tekið þátt í samsæri um að fela og hýsa ólöglega innflytjendur í fjárhagslegum tilgangi. Þá hafi hún einnig notað skilríki í sviksamlegum tilgangi. 

Hún sagði fyrir rétt í Brooklyn í New York að hún sæi mjög eftir þessu. 

„Ég vildi gera góðverk í heiminum og hjálpa fólki,“ sagði hún. „Ég hef aftur á móti gert mistök.“

Þetta kemur fram á vef BBC.

Þar segir að alls hafi sex einstaklingar verið ákærðir í tengslum við starfsemi Nxivm, sem er borið fram nexium. Bronfman er sú fimmta sem játar sök í málinu. Réttað verður í máli Keith Raniere, sem er sagður vera leiðtogi samtakanna, í næsta mánuði. 

Dómur verður kveðinn upp í máli Bronfman 25. júlí. Hún gæti verið dæmd í 25 ára fangelsi, en þó er talið líklegra miðað við fordæmi að dómurinn verði aðeins um 27 mánuðir. 

Samtökin Nxivm urðu til árið 1998 sem sjálfshjálparsamtök. Þau segjast hafa unnið með um 16.000 manns, m.a. leikkonunni Allison Mack, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Smallville. Hún tengdist einnig samtökunum og játaði sök hvað varðar hennar þátt í máliu fyrr í þessum mánuði. 

Fram kemur á vef samtakanna, að Nxivm sé samfélag sem vinni samkvæmt reglum mannúðar. Þau vilja valdefla fólk og svara mikilvægum spurningum um hvað það þýði að vera mannvera. 

Þrátt fyrir að í slagorði samtakanna komi fram að þau vilji vinna að bættum heimi, þá er Raniere, meintur höfuðpaur Nxivm, sakaður um kynlífsþrælkun. Konur, sem ganga til liðs við samtökin, eru sagðar þurfa að stunda kynlíf með honum sem vígsluathöfn auk þess sem þær eru brennimerktar með upphafsstöfunum í nafni hans. 

Þá segja saksóknarar að samtökin svipi einnig til svokallaðs pýramídasvindls, þar sem félagar í samtökunum þurfa að reiða af hendi mörg þúsund dali til að fá að taka þátt í námskeiðum sem eiga að aðstoða þá við að ná klífa metorðastigann innan Nxivm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert