Mannskæðar sprengjuárásir á Sri Lanka

Lögreglan stendur vörð fyrir utan kirkjuna St. Anthony's Shrine í …
Lögreglan stendur vörð fyrir utan kirkjuna St. Anthony's Shrine í höfuðborg Sri Lanka þar sem sprenging varð. AFP

Að minnsta kosti 137 manns fórust í sprengingum sem var beint að hótelum og kirkjum á Sri Lanka. Þar af fórust að minnsta kosti 45 í höfuðborginni Kólombó þar sem þrjár sprengjur sprungu bæði á hótelum og í kirkju.

Alls voru 67 drepnir í árás sem var gerð á kirkju í borginni Negombo, norður af Kólombó, og 25 til viðbótar við kirkjur í bænum Batticaloa í austurhluta landsins.

Að minnsta kosti einn lést á veitingastað á hótelinu Cinnamon Grand, skammt frá húsnæði forsætisráðherra Sri Lanka.

Sprengjurnar sem sprungu voru að minnsta kosti sex talsins. Enginn hefur enn lýst ábyrgð á árásunum á hendur sér. Að minnsta kosti níu erlendir ríkisborgarar voru á meðal þeirra sem fórust. 

Lögreglan ásamt sjúkrabíl fyrir utan St. Anthony´s Shrine í Kólombó.
Lögreglan ásamt sjúkrabíl fyrir utan St. Anthony´s Shrine í Kólombó. AFP

Ranil Wickremesingh, forsætisráðherra Sri Lanka, fordæmdi árásirnar í tísti á Twitter-síðu sinni. „Ég fordæmi þessar árásir sem hugleysingjar gerðu á fólkið okkar í dag. Á þessum erfiðu tímum bið ég alla íbúa Sri Lanka um að standa saman og sýna styrk…Ríkisstjórnin grípur strax til ráða til að ná tökum á stöðu mála,“ sagði hann.

Yfirmaður lögreglunnar á Sri Lanka varaði við því tíu dögum fyrir árásina að sjálfsvígsárásarmenn ætluðu að ráðast á „þekktar kirkjur“. Skilaboð voru send til lögreglustjóra um allt landið.

„Erlend leyniþjónusta hefur sagt að NTJ (National Towheeth Jama´ath) ætli að gera sjálfsvígsárásir á kirkjur og á indverska sendiráðið í Kólombó,“ sagði í bréfinu sem Pujuth Jayasundara sendi.

NTJ eru róttæk samtök múslima á Sri Lanka sem vöktu athygli á síðasta ári í tengslum við skemmdarverk á búddistastyttum.

Uppfært kl. 8.35:

Að minnsta kosti 156 eru látnir, þar af 35 erlendir ríkisborgarar, eftir árásirnar.



AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka