Malcolm Ranjith, erkibiskupinn í Colombo á Sri Lanka, fordæmdi í dag sprengjuárásir sem voru gerðar í landinu með þeim afleiðingum að 207 létust og 450 særðust. Árásarmennirnir beindu spjótum sínum gegn kirkjum og hótelum. Ranjith líkti árásarmönnunum við skepnur.
Hann sagði ennfremur að þetta væri afar sorglegur dagur í sögu landsins og bað fyrir þeim sem misstu ástvini eða særðust í árásunum.
Um allan heim hafa trúarleiðtogar og stjórnamálamenn fordæmt árásirnar.
Páskaguðsþjónusta var í gangi í þremur kirkjum í Negombo, Batticaloa og Kochchikade-hverfi Colombo, höfuðborgar landsins, þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða. Alls var tilkynnt um átta sprengingar, en einnig var ráðist á glæsihótelin Shangri-La, Kingsbury Cinnamon Grand í höfuðborginni.
Stjórnvöld settu í kjölfarið ótímabundið útgöngubann. Þá er búið að loka tímabundið fyrir alla samfélagsmiðla.
Ekki liggur fyrir hverjir stóðu á bak við ódæðin, en alls hafa þrettán verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins.
Síðdegis í dag greindi lofther landsins frá því að sprengja hefði fundist skammt frá aðalflugvellinum í Colombo. Sprengjunni hefur verið eytt.