Árásirnar á Srí Lanka ráðgáta

Jón Óskar Sólnes, sem hefur ritað bók um Sri Lanka, …
Jón Óskar Sólnes, sem hefur ritað bók um Sri Lanka, segir árásirnar sem framkvæmdar voru í landinu í gær vekja upp miklar spurningar.

Jón Óskar Sólnes, sjónvarpsmaður og fyrrverandi yfirmaður norrænu friðargæslunnar á Srí Lanka, segir í samtali við mbl.is að hryðjuverkin í landinu koma sér mjög á óvart, sérstaklega vegna þess hversu mikið skipulag þarf að vera að baki slíkra samstilltra árása eins og voru framkvæmdar á Srí Lanka í gær.

Um 290 létu lífið og yfir 500 særðust í sprengjutilræðum á Srí Lanka í gær.

„Það sem mér fannst mjög merkilegt er að þessar árásir voru greinilega þaulskipulagðar. Ef maður skoðar þessa aðferð að nota sjálfsmorðsprengjumenn, þá er það mjög flókið mál. Það þarf að heilaþvo slíka menn og þjálfa í mjög langan tíma,“ segir hann. „Þetta er alveg sláandi.“

Ekki tígrarnir

„Þetta hefði verið alveg dæmigerð stóraðgerð Tamíl-tígrana í gamla daga. Þeir hefðu gert þetta nákvæmlega svona, en Tamíl-tígrarnir hafa ekki verið til neins líklegir í tíu ár. Þau samtök voru drepinn fyrir tíu árum síðan og hefur ekki heyrst til þeirra síðan,“ útskýrir Jón Óskar.

Hann segir það vera langsótt að Tamíl-tígrarnir hafa tengst tilræðinu og þá vakni spurning hverjir séu gerendur. Í ljósi þess að þetta hafi beinst að kirkjum og hótelum mætti draga þá ályktun að árásirnar tengjast öfgakenndum íslamistum. „Það vekur líka upp spurningar, því það er ekki vitað til þess að íslamistar eða múslímar í Sri Lanka hafi neina slíka þekkingu, getu eða þjálfun til þess að fremja slíkar árásir.“

Kirkjur voru meðal helstu skotmarka hryðjuverkamannana.
Kirkjur voru meðal helstu skotmarka hryðjuverkamannana. AFP

Mögulega utanaðkomandi

„Þeir hafa frekar viljað lifa í samlyndi við hina þjóðflokkana á Sri Lanka. Þannig að það er stór spurning til hvers þetta er gert og af hverju. Það er hálfgerð ráðgáta,“ segir Jón Óskar og tekur fram að honum finnist málið mjög furðulegt. Hann segir þá spurningu vakna hvort einhver utanaðkomandi eigi þátt í tilræðinu.

Fram kom í umfjöllun Reuters í kvöld að sumir sérfræðingar telja líklegt að National Thawheed Jamaut-samtökin standi að baki árásanna og að þeir hafi fengið stuðning frá al-Qaeda eða Ríki íslams til þess að framkvæma ódæðisverkin.

„Þetta vekur upp ýmsar spurningar því maður sér eiginlega ekki hvernig þessi fámennu samtök geta hreinlega framkvæmt svona,“ segir Jón Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert