Neyðarlög hafa tekið gildi á Sri Lanka en 24 hafa verið handteknir eftir að nærri 300 létust og 500 til viðbótar særðust í hryðjuverkaárásum þar í landi í gær.
Kröftugar sprengjur sprungu í kirkjum og á lúxushótelum víða um Sri Lanka í gær. Flestir hinna látnu eru heimafólk en þó létust tugir útlendinga. Árásirnar í gær eru þær skelfilegustu sem gerðar hafa verið á kristna minnihlutann á Sri Lanka en fjölmenni var í kirkjunum þremur í gær þegar árásirnar voru gerðar.
Neyðarlögin tóku gildi á miðnætti að staðartíma en samkvæmt þeim aukast völd hers og lögreglu. Halda má einstaklingum í varðhaldi án dómsúrskurðar.
Rannsakað er hvers vegna ekki voru gerðar frekari varúðarráðstafanir þrátt fyrir að varað hafi verið við því, tíu dögum fyrir árásina, að hryðjuverkasamtökin National Thawheed Jamaut myndu ráðast á kirkjur í landinu.