Deyja út af mannavöldum

Skortur á drykkjarhæfu vatni gæti orðið að veruleika.
Skortur á drykkjarhæfu vatni gæti orðið að veruleika. AFP

Um milljón tegundir eiga hættu á að deyja út af mannavöldum. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu Sameinuðu þjóðanna um auðlindir náttúrunnar sem fréttastofan AFP er með undir höndum. Skýrslan greinir frá því hvað það er sem grefur undan þeim náttúruauðlindum sem mannfólkið reiðir sig á til að lifa af. 

Skortur á hreinu lofti, drykkjarhæfu vatni, minna skóglendi, útbreiðsla skordýra, fækkun próteinríks fiskjar, minnkun votlendis er ekki síður minni ógn við lífríkið en loftslagsbreytingar, segir í skýrslunni. Hún birtist opinberlega 6. maí næstkomandi.  

Fulltrúar frá 130 þjóðum koma saman í París 29. apríl til að ræða stöðu náttúrunnar út frá þessari 1.800 blaðsíðna skýrslu Sameinuðu þjóðanna. 

„Við þurfum að átta okkur á því að loftslagsbreytingar og eyðing náttúrunnar eru jafnmikilvæg. Ekki bara fyrir umhverfið heldur einnig fyrir þróunina og hagkerfið,“ segir Robert Watson einn af höfundum skýrslunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert