Hefja áætlunarflug yfir Sýrland á ný

Qatar Airways ætlar að fljúga yfir Sýrland á ný.
Qatar Airways ætlar að fljúga yfir Sýrland á ný. AFP

Ríkisstjórn Sýrlands hefur heimilað flugvélum flugfélagsins Qatar Airways að fljúga í gegnum lofthelgi landsins nú átta árum eftir að stríðið braust út og varð til þess að flugfélög gátu ekki flogið vélum sínum yfir landið.

Í yfirlýsingu kemur fram að sýrlenski samgönguráðherrann Ali Hammoud hafi samþykkt beiðni flugmálayfirvalda í Katar þar að lútandi.

Flest flugfélög hættu að fljúga fyrir Sýrland eftir að stríðið braust út árið 2011. Þess í stað þurftu þau að fljúga lengri flugleiðir fram hjá átakasvæðunum. Á undanförnum misserum hefur hins vegar dregið töluvert úr átökunum og stjórnarherinn með aðstoð Rússa flæmt uppreisnarhópa og öfgahópa frá stórum svæðum í landinu.

Sýrlenskar vélar flugu til Katar

Í yfirlýsingu samgönguyfirvalda segir að flugfélaginu SyrianAir hafi verið heimilað að fljúga vélum sínum í gegnum lofthelgi Katar og lenda í Doha allt stríðið. Því hafi verið ákveðið að heimila Qatar Airways að fljúga um sýrlenska lofthelgi. Einnig kemur fram að þetta þýði auknar tekjur fyrir sýrlenska ríkið.

Stjórnvöld í Katar hafa hingað til stutt stjórnarandstöðuna í Sýrlandi og slitu öllum stjórnmálatengslum við ríkisstjórn Sýrlands er stríðið braust út. Sýrlandi var vikið úr Arababandalaginu í nóvember árið 2011 er mannfall í stríðinu hafði margfaldast. Í dag er talið að ríkisstjórn Sýrlands ráði yfir um 60% af landinu.

Fleiri ríki eru að endurnýja tengsl sín við Sýrland m.a. Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, sem hafa þegar opnað sendiráð sín í Damaskus að nýju. Katar hyggst hins vegar ekki opna sendiráð sitt þar í borg í bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert