Hefnd fyrir árásirnar í Christchurch

Maður stendur fyrir utan kirkju í Colombo, sem var á …
Maður stendur fyrir utan kirkju í Colombo, sem var á meðal þeirra staða sem hryðjuverkamennirnir réðust gegn á sunnudag. AFP

Frumrannsókn yfirvalda á Srí Lanka sýnir fram á að hryðjuverkaárásirnar í ríkinu á páskadag, sem kostuðu að minnsta kosti 310 mannslíf, voru hefndarverk vegna árásanna í Christchurch á Nýja-Sjálandi í síðasta mánuði. Þetta sagði Ruwan Wijewardene, vara-varnarmálaráðherra Srí Lanka, við þingið þar í landi í dag.

„Frumrannsóknin hefur afhjúpað að það sem gerðist á Srí Lanka var í hefndarskyni fyrir árásina gegn múslimum í Christchurch,“ sagði Wijewardene við þingmenn, samkvæmt frétt AFP.

Fjörutíu manns hafa verið handtekin vegna rannsóknar yfirvalda á sjálfsvígsárásunum á sunnudaginn, en yfirvöld á Srí Lanka hafa skellt skuldinni á lítt þekktan innlendan hryðjuverkahóp, National Thowheeth Jama‘ath, sem mögulega hafi starfað með alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum.

Ríkisstjórnin hefur viðurkennt að hafa fengið ábendingu um fyrirhugaða árás hryðjuverkasamtakanna 10 dögum áður en árásarmennirnir létu til skarar skríða með samhæfðum sjálfsvígsárásum í kirkjum og á hótelum.

Frá vettvangi sjálfsvígsárásar í St. Sebastian-kirkjunni í Negombo. Alls 310 …
Frá vettvangi sjálfsvígsárásar í St. Sebastian-kirkjunni í Negombo. Alls 310 eru látnir eftir árásirnar á páskadag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert