Boðað hefur verið til blysfara víða í Danmörku á morgun og fimmtudag í minningu þeirra sem létust í hryðjuverkunum á Sri Lanka á páskadag. Þrjú dönsk systkini eru meðal þeirra 310 sem létust. Skólasystkini þeirra við Højvangskolen í Árósum minnast þeirra í dag ásamt foreldrum og kennurum.
Blysfarir hafa verið skipulagðar í Árósum, Óðinsvéum og Kaupmannahöfn en þar hefst athöfnin á Kóngsins nýjatorgi klukkan 20 annað kvöld. Þar verða flutt ávörp, tónlistaratriði og sameinast í mínútulangri þögn. Minningarathöfnin er skipulögð af ungliðahreyfingum dönsku stjórnmálaflokkanna.
Flaggað er í hálfa stöng við Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn í dag en þrjú af fjórum börnum danska milljarðamæringsins Anders Holch Povlsen létust í árásinni á páskadag. Jafnframt verður flaggað í hálfa stöng við fjármálaráðuneytið, varnarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið sem og ráðhúsið í Kaupmannahöfn.
Samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum í Árósum hefur verið boðað til minningarathafnar í Stavtrup, hverfinu þar sem Povlsen-fjölskyldan býr.
Fundur var boðaður með nemendum og foreldrum við Højvangskolen í morgun þar sem stjórnendur skólans munu ræða um atburði helgarinnar. Að sögn stjórnenda skólans verður nemendum gefinn kostur á að ræða sorgina og líðan sína við félaga sína og kennara. Jafnframt verður boðið upp á sálrænan stuðning frá fagfólki á vegum skóla- og frístundaráðs borgarinnar.
Af börnunum þremur voru tvö þeirra nemendur við skólann. Í dag er fyrsti skóladagurinn þar eftir páskafrí.
Anders Holch Povlsen og eiginkona hans, Anne, voru ásamt fjórum börnum sínum í leyfi á Sri Lanka. Ekki hefur verið upplýst um hvað af börnum þeirra lifði af en börnin heita Alma, Astrid, Agnes og Alfred.
Flestir þeirra 310 sem létust í árásunum voru innlendir en meðal þeirra útlendinga sem létust voru átta Bretar, þar af kona og tvö börn hennar.
Anita Nicholson, 42 ára, 11 ára gamall sonur hennar, Alex, og 14 ára dóttir, Annabel, létust á Shangri-La-hótelinu í Colombo. Eiginmaður Anitu, Ben Nicholson, var sá eini í fjölskyldunni sem lifði af en fjölskyldan var að borða morgunverð á hótelinu þegar sprengjan sprakk.