Nýtt bóluefni gegn malaríu gefur góða raun. Fyrstu tilraunir á bóluefninu sýndu að tæplega 40% barna frá 5 til 17 mánaða aldri voru ónæm gegn malaríu. Tilraunir hófust í Malaví nýverið með þessu nýja bóluefni og verða 120 þúsund börn yngri en tveggja ára bólusett. BBC greinir frá.
Malaría smitast með moskítóflugnabiti og getur valdið dauða. Á síðustu árum hefur þeim sem greinast með malaríu fjölgað en ekki fækkað líkt og áratugina á undan.
„Þetta eru tímamót í bólusetningum og stjórn á malaríu. Þetta snertir lýðheilsu okkar allra,“ segir Kate O'Brien yfirmaður bólusetninga hjá bóluefna hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Hún sagði jafnframt að það væri einstaklega erfitt að þróa bóluefni gegn malaríu.
Malaví er eitt af þremur löndum sem voru voru valin til að prufa bóluefnið. Hin löndin eru Gana og Kenía og brátt verða þarlend börn einnig bólusett. Þessi lönd voru valin því þar er reynt að stemma stigu við malaríu með markvissum hætti meðal annars með notkun neta yfir rúm. Þrátt fyrir það greinast fjölmargir með malaríu árlega.
Árið 2017 létust alls 435 þúsund manns úr malaríu og meira en helmingur þeirra voru börn. Flest tilfellin eru í Afríku.