Lögreglan á Skáni í Svíþjóð hefur fengið ábendingu um sprengingu í nágrenni Nóbeltorgsins í miðborg Malmö. Ábendingin barst frá vegfaranda kortéri fyrir miðnætti að staðartíma, kortéri fyrir tíu að íslenskum tíma. Engar upplýsingar liggja fyrir um hvort einhverjir eru særðir.
Franz Oliver Ljungberg, sem er búsettur í borginni, var í um 150 metra fjarlægð frá sprengingunni. Í samtali við mbl.is segir hann að mikil ringulreið hafi skapast á torginu, sem jafnan er fjölsótt, og fólk hafi forðað sér í skyndi.
Að sögn sænska ríkisútvarpsins sprakk sprengjan fyrir framan aðalinngang byggingar. Framhlið hússins er lítillega skemmd og gluggar brotnir. Sprengjudeild ríkislögreglunnar er mætt á vettvang og hefur hann verið girtur af meðan gengið er úr skugga um að ekki sé hætta á frekari sprengingum.
Þetta er í annað sinn á tveimur vikum sem sprengja springur í nágrenni Nóbeltorgsins í Malmö en síðast særðist tólf ára stúlka.