Tala látinna hækkar enn

AFP

Íbúar Sri Lanka minntust þeirra sem létust í hryðjuverkaárásunum á páskadag með þögn klukkan 8:30 að staðartíma, nákvæmlega tveimur sólarhringum frá því fyrsta sprengjan sprakk. Alls eru 310 látnir en um 20 létust af völdum sára sinna í nótt.

Fyrstu minningarathafnirnar verða haldnar í dag, þar á meðal um tugi útlendinga sem létust í árásunum. Neyðarástandi var lýst yfir í gærkvöldi og að sögn stjórnvalda standa íslömsk öfgasamtök á bak við ódæðin. 

AFP

Að sögn lögreglu eru 40 manns í haldi í tengslum við árásirnar en mikill viðbúnaður er vegna árásanna. Í gær sprakk sprengja áður en lögreglu tókst að aftengja hana en engan sakaði. Sprengjan var í bifreið skammt frá einni af kirkjunum þremur þar sem árásarnar voru gerðar á páskadagsmorgun. Eins fann lögregla 87 sprengjuþræði á umferðarmiðstöð í Colombo, höfuðborg Sri Lanka í gær. 

Að minnsta kosti fjórir Bandaríkjamenn létust í árásunum, þar á meðal barn. Þrír Hollendingar og þrjú dönsk systkini. Átta Bretar, átta Indverjar og fólk frá Tyrklandi, Ástralíu, Frakklandi, Japan og Portúgal fórust einnig í árásunum á þrjú lúxushótel sem eru vinsæl meðal erlendra ferðamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert