Samfélagsmiðilinn Facebook hefur greint frá því að hann muni setja til hliðar þrjá milljarða bandaríkjadala til að hafa til taks vegna rannsóknar bandarískra yfirvalda á því hvernig samfélagsmiðilinn fer með persónuupplýsingar notenda.
Fram kemur í frétt AFP að fyrirtækið búi sig undir háa sekt en Neytendastofa Bandaríkjanna rannsakar málið. Talið er að sektin geti numið fimm milljörðum bandaríkjadala.
Enn fremur kemur fram í yfirlýsingu Facebook að notendum á samfélagsmiðlunum hafi fjölgað um 8% það sem af er ári og er þeir núna rétt rúmlega 2,3 milljarðar.
Skömmu fyrir jól kom fram að Facebook hafi í fleiri ár veitt stærstu tæknifyrirtækjum heims aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum notenda, þvert á það sem talsmenn fyrirtækisins hafa haldið fram.