„Farsótt rekin áfram af græðgi“

AFP

Tveir fyrrverandi stjórnendur hjá bandaríska Rochester lyfjafyrirtækinu voru í gær ákærðir fyrir aðild að ópíóíðafaraldrinum sem hefur kostað tugi þúsunda lífið í Bandríkjunum.

Þetta er í fyrsta skipti sem slík ákæra er gefin út í tengslum við sölu og dreifingu verkjalyfja eins og oxycodone og fentanyl sem eru mjög ávanabindandi.

Laurence Doud, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri RDC og William Pietruszewski, sem er fyrrverandi regluvörður fyrirtækisins, eru ákærðir fyrir að hafa farið að skipunum sem þeir vissu að væru kolrangar. RDC er einn stærsti dreifingaraðili ópíóíða í Bandaríkjunum. Fyrirtækið hefur gert samkomulag við skrifstofu saksóknara í New York vegna aðildar að ópíóíðafaraldrinum. Greiðir fyrirtækið 20 milljón Bandaríkjadala sekt. Þess í stað verður fyrirtækið ekki saksótt og mun halda lyfjadreifingarleyfi sínu gegn loforði um að bæta viðskiptahætti sína.

Í yfirlýsingu viðurkennir RDC að hafa á árunum 2012-2017 að tilkynna um lyfjasendingar sem væru óeðlilegar líkt og kveðið er á um í bandarískum lyfjalögum. Í yfirlýsingu saksóknara, Geoffrey Berman, kemur fram að saksóknin nú sé sú fyrsta af þessari tegund. Að stjórnendur lyfjadreifingarfyrirtækis og dreifingaraðilarnir sjálfir séu ákærðir fyrir fíkniefnaviðskipti, dreifingu lyfja sem hafa kynt undir bál ópíóíðafaralds sem herjar á þjóðina. 

RDC sér um að dreifa lyfjum til um 1.300 lyfsala og velta fyrirtækisins er rúmlega einn milljarður dala á ári. Að minnsta kosti tvö þúsund óeðlilegar lyfjapantanir voru ekki tilkynntar til bandaríska lyfjaeftirlitsins (Drug Enforcement Administration, DEA), líkt og kveðið er á um í lögum. 

Doud og Pietruszewski eru ákærðir um samsæri og eiga yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsisdóm verði þeir fundnir sekir. Doud var handtekinn í gær og síðar þann dag látinn laus gegn 500 þúsund dala tryggingu. Pietruszewski játar sök.

Um 47.600 manns létust árið 2017 vegna ofskömmtunar ópíóíðalyfja í Bandaríkjunum.  „Þessi farsótt er rekin áfram af græðgi,“ sagði Berman á blaðamannafundi í gær og benti á að laun Doud hafi meira en tvöfaldast á milli áranna 2012 og 2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert