Endurskipulagning innan lögreglunnar og sérsveita er svar forseta Srí Lanka, Maithripala Sirisena, við gagnrýni um að viðvaranir um fyrirhuguð hryðjuverk hafi verið hunsaðar. Á sama tíma fylgja ástvinir þeim sem létust í árásunum á páskadag til grafar. Enn á eftir að bera kennsl á einhverja en alls eru 359 látnir og yfir 500 særðir.
Forsætisráðherra Srí Lanka, Ranil Wickremesinghe, segir að mögulega tengist vígasamtökin Ríki íslams hryðjuverkunum en samtökin hafa lýst ábyrgð á hendur sér en þau hafa ekki lagt fram neinar sönnur á þær fullyrðingar. Er nú rannsakað hvaða tengsl séu á milli unga fólksins sem framdi árásirnar og vígasamtakanna.
Sirisena ávarpaði þjóð sína í dag og sagði að endurskipulagning innan lögreglunnar fari fram á næstu vikum. Hann segir að yfirmenn öryggismála sem fengu upplýsingar frá erlendum leyniþjónustum um að árásir væru yfirvofandi yrðu látnir sæta ábyrgð.
Að sögn ritstjóra BBC í Suður-Asíu er það neyðarlegt fyrir forsetann að viðurkenna að yfirmenn öryggismála ríkisins hafi ekki upplýst hann um fyrirhugaðar árásir. Ljóst þykir að öfgasamtökin National Thowheeth Jama'ath hafi ekki getað staðið ein að árásunum og þau hljóti að hafa fengið aðstoð erlendis frá. Að sögn forsætisráðherra bendir ýmislegt til tengsla við Ríki íslams en ekki séu öll kurl komin til grafar. Sérsveitir lögreglu leituðu á nokkrum stöðum í nótt og handtóku 18 til viðbótar við þá sem þegar voru í haldi og eru nú um 60 manns í varðhaldi í tengslum við árásirnar.
Samkvæmt fréttamanni BBC blasir sorgin við þér hvar sem er í bænum Batticaloa. Á hverju götuhorni hanga myndir af fólki sem lést í árásunum. Myndir af börnum, brosandi í sparifötunum og fyrir neðan myndirnar er texti sem segir hvaða dag þau fæddust og hvaða dag þau dóu, 21. apríl. Börnin höfðu verið í sunnudagaskólanum í Zion-kirkjunni líkt og á hverjum sunnudegi. Eftir messu fóru þau út og fengu sér snarl saman. Stuttu seinna sprakk sprengjan.