Klappaði barni á kollinn skömmu áður

Árásarmaðurinn með bakpokann á leið að kirkjunni.
Árásarmaðurinn með bakpokann á leið að kirkjunni. AFP

Hrollvekjandi myndskeið sem sýnir einn af sjálfsvígsárásarmönnunum klappa barni góðlátlega á kollinn á leið sinni að St Sebastian kirkjunni í Negombo. Þegar þangað er komið gengur hann rösklega inn að altari kirkjunnar og virkjar sprengjur sem hann er með í bakpoka sínum. Yfir 350 létust í sjálfsvígsárásum á sex stöðum á eyjunni Sri Lanka á páskadag.

Myndskeiðið er úr eftirlitsmyndavélum fyrir utan St Sebastian kirkjuna og hefur farið víða á netinu undanfarinn sólarhring. Þar sést skeggjaður maður í ljósblárri skyrtu, kakíbuxum og sandölum koma gangandi að kirkjunni.

Þegar hann nálgast skotmarkið mætir hann ungri stúlku ásamt afa hennar og gefur sér tíma til að klappa henni á kollinn og axlir og sést stúlkan horfa upp til hans og á eftir honum þegar hann heldur leið sinni áfram.

„Það var tilræðismaðurinn“

Litla stúlkan er barnabarn Dilip Fernando. Þau voru á leiðinni í páskamessuna í St Sebastian en þegar hann sá hversu troðið var þar ákvað hann að kanna hvort færri væru viðstaddir einhverja aðra messu í bænum. Þessi ákvörðun bjargaði væntanlega lífi þeirra. En ekki lífi  kirkjugesta sem tróðust inni í kirkjunni. Vegna mannmergðar innandyra ákváðu margir að hlýða á messuna fyrir utan kirkjuna, þar á meðal margir sem voru með börn með sér. Þetta fólk tók vart eftir manninum með þunga bakpokann enda fátt athugavert við hann. Myndskeiðinu lýkur þar sem hann stendur skammt frá altari kirkjunnar. Tugir kirkjugesta létust nokkrum andartökum síðar. En talið er að flestir hafi látist í þessari árás af þeim sex sjálfsvígsárásum sem gerðar voru á stuttum tíma þennan morgun á Srí Lanka, þremur kirkjum og þremur lúxushótelum. 

Úr myndskeiðinu frá St Sebastian.
Úr myndskeiðinu frá St Sebastian. AFP

Fjölskylda Fernando tók eftir manninum þegar hann kom að kirkjunni. Messunni var að ljúka þegar hann kom að: „Hann snerti höfuð barnabarns míns á leiðinni framhjá. Það var tilræðismaðurinn,“ segir Fernando. 

Ekki hefur verið upplýst um hver tilræðismaðurinn var en komið hefur fram að einn árásarmannanna lærði í Bretlandi og Ástralíu. Talið er að vígasamtökin Ríki íslams hafi fjármagnað hryðjuverkin.

St. Sebastian's í Negombo.
St. Sebastian's í Negombo. AFP

Menntaður í Bretlandi og Ástralíu

Ruwan Wijewardene, varnarmálaráðherra Srí Lanka, segir að viðkomandi hafi verið við nám í Bretlandi og síðan framhaldsnámi í Ástralíu áður en hann sneri aftur heim til Srí Lanka. Hann staðfestir að margir þeirra hafi haft alþjóðleg tengsl, þeir hafi búið eða lært erlendis. 

„Þessi hópur sjálfsvígsárásarmanna var að stærstum hluta vel menntaður og kemur frá mið- eða efri stéttum svo þeir voru fjárhagslega sjálfstæðir og fjölskyldur þeirra í góðum efnum,“ segir hann. Einhverjir þeirra eru með háskólagráður erlendis frá, til að mynda embættispróf í lögfræði.

Átján voru handteknir í nótt og eru alls 58 í haldi í tengslum við rannsóknina en að sögn forsætisráðherra landsins, Ranil Wickremesinghe, má gera ráð fyrir að fólk sem tengist árásunum beint og hefur sprengiefni undir höndum gangi enn laust. 

Maðurinn í miðjunni er að öllum líkindum Zahran Hashim.
Maðurinn í miðjunni er að öllum líkindum Zahran Hashim. AFP

Aftur á móti telja yfirvöld að leiðtogi þeirra sé meðal þeirra níu sem frömdu sjálfsvíg en talið er að leiðtoginn heiti  Mohammed Zaharan sem var lítt þekktur klerkur sem kom öfgahópnum á laggirnar. 

Meðal þeirra sem voru handteknir í gær eru sex pakistanskir flóttamenn, þar á meðal tvær konur og tvö börn. Ástæðan fyrir því að þau eru í haldi er sú að sá sem sprengdi sig upp í St Sebastian kirkjunni heimsótti flóttafólkið á heimili þeirra. Eins er leigusali þeirra í haldi en hann bjó einnig í sama húsi. Systir hans segir í viðtali við Guardian að bróðir hennar sé saklaus. Ekkert sé hæft í því að vígamaðurinn hafi heimsótt fólkið. 

AFP

Í myndskeiði Ríkis íslams má sjá mann, sem yfirvöld telja að sé leiðtogi öfgahópsins NTJ, Zahran Hashim. Sést hann leiðbeina hópi við að heita leiðtoga Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, hollustu. 

Heimildir AFP herma að tvær bræður, synir auðugs kryddsala, hafi sprengt sig upp á Shangri-La og Cinnamon Grand hótelunum. Faðir þeirra er einn þeirra 58 sem eru í haldi lögreglu. 

AFP

Ríkislögreglustjóri Srí Lanka gaf út viðvörun 11. apríl um mögulega sjálfsvígsárás NTJ og sagði að viðvörun hafi borist frá erlendum leyniþjónustum. Að sögn forsætisráðherra landsins bárust honum aldrei upplýsingar um viðvörunina. Né heldur öðrum ráðherrum. Ríkisstjórnin verði að axla ábyrgð á þessum mistökum. Samkvæmt CNN komu upplýsingarnar frá leyniþjónustu Indlands. 

AFP

Bandarísk yfirvöld neita því að þau hafi haft þessar upplýsingar undir höndum en teymi sérfræðinga bandarísku alríkislögreglunnar er nú að störfum á Srí Lanka. 

Leiðtogar múslíma á Srí Lanka segja að þeir hafi ítrekað lagt fram kvartanir vegna framgöngu Hashim. Ekkert hefur spurst til hans síðan á páskadag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert