Verkamenn sem unnu að viðgerðum á Notre Dame-dómkirkjunni virtu reykingabann að vettugi. Þetta hefur verktakinn sem sá um framkvæmdina viðurkennt. Hann neitar því þó að tengsl séu á milli þessa og brunans sem varð í kirkjunni.
„Það voru starfsmenn sem endrum og sinnum brutu reglurnar og okkur þykir það leitt,“ segir talsmaður verktakafyrirtækisins Le Bras Freres, en bætti svo við: „Það er ekki mögulegt að sígarettustubbur hafi valdið eldsvoðanum í Notre Dame.“
Talsmaðurinn Marc Eskenazi segir að sumir verkamennirnir hafi viðurkennt fyrir lögreglu að þeir hefðu annað slagið reykt við vinnu sína og staðfestir þar með frétt dagblaðsins Le Canard Enchaine. Blátt bann var lagt við reykingum á vinnupöllunum við kirkjuna. Viðgerðirnar sem unnið var að miðuðu að því að laga sprungur sem víða voru orðnar sjáanlegar á byggingunni.
Þak Notre Dame var úr viði og brann það og hrundi að mestu, m.a. bjálkar sem komið hafði verið fyrir á tólftu öld. Eskenazi segir að langan tíma hafi tekið verkamennina að fara úr pöllunum og niður til að reykja og því hafi þeir freistast til að brjóta reglurnar og reykja á þeim.
Hann segir hins vegar ómögulegt að sígarettuglóð hafi kveikt eldinn mikla, „allir sem hafa einhvern tímann reynt að kveikja eld heima hjá sér vita að það gerist ekki með því að setja sígarettustubb á eikardrumb.“
Franska lögreglan hefur þegar yfirheyrt verkamennina í þeirri viðleitni sinni að komast að því hvað varð til þess að það kviknaði í hinni fornu kirkju.
Í fjölmiðlum hafa kenningar um skammhlaup verið viðraðar, m.a. skammhlaup í lyftubúnaði sem komið hafði verið fyrir vegna viðgerðanna. Eskenazi segir að lyfturnar hafi verið í góðu lagi.
Í gær var unnið að því að setja dúk yfir kirkjuna til að vernda hana fyrir rigningu sem er á þessu stigi talin geta valdið enn meiri skemmdum á byggingunni.