Þriggja ára grátandi og yfirgefinn á landamærunum

Mögulegt er að drengurinn hafi komið yfir landamærin með smyglurum …
Mögulegt er að drengurinn hafi komið yfir landamærin með smyglurum sem síðan yfirgáfu hann. Ljósmynd/CBP

Þriggja ára flóttadrengur, einn og yfirgefinn, fannst grátandi á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna skammt frá Rio Grande í Texas í gærmorgun. 

Talið er að drengurinn hafi tilheyrt stærri hópi sem forðaði sér þegar þeir gengu í flasið á landamæravörðum, að sögn bandarísku tollgæslu- og landamærastofnunarinnar (CBP). Stofnunin telur því mögulegt að drengurinn hafi komið yfir landamærin með smyglurum sem síðan yfirgáfu hann.

Nafn og símanúmer var ritað á skó drengsins og var hann færður á Fort Brown-landamærastöðina og er undir eftirliti landamæravarða á meðan reynt er að hafa uppi á fjölskyldu hans. Drengurinn hefur ekki getað veitt upplýsingar um fjölskyldu sína, að sögn landamæravarða.

Drengurinn hefur verið skoðaður af læknum og mun dvelja í sérstökum landamærabúðum á meðan reynt verður að finna fjölskyldu hans og verður hann í umsjón barnaverndarstarfsmanna.

Þúsund­ir flótta­manna hafa und­an­farna mánuði komið frá ríkj­um Mið-Am­er­íku að landa­mær­um Banda­ríkj­anna en flest­ir eru á flótta und­an of­sókn­um, fá­tækt og of­beldi í heima­lönd­um sín­um. Flest­ir koma frá Gvatemala, Hond­úras og El Sal­vador.

Nafn og símanúmer var ritað á skó drengsins.
Nafn og símanúmer var ritað á skó drengsins. Ljósmynd/CBP

9.000 fylgdarlaus börn frá áramótum 

Á mánudag höfðu yfirvöld í Mexíkó afskipti af um 400 flóttamönnum sem reyndu að komast yfir landamærin. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fylgst grannt með ástandinu við landamærin og fagnaði fyrr í dag starfi landamæravarðanna þegar hann fullyrti í færslu á Twitter að þeir hafi stöðvað för 418 þúsund flóttamanna á leið sinni yfir landamærin það sem af er þessu ári.

Í tilkynningu frá bandarísku tollgæslu- og landamærastofnuninni sem BBC vísar í segir hins vegar að 207.475 flóttamenn hafi verið stöðvaðir á suðvesturhluta landamæra Bandaríkjanna og Mexíkó frá áramótum og til marsloka. Þar af rúmlega 53 þúsund fjölskyldur og tæplega níu þúsund fylgdarlaus börn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert