Tveggja danskra ríkisborgara sem eru ættaðir frá Sri Lanka er saknað eftir sprengjutilræðin á páskadag. Sendiherra Danmerkur í Indlandi staðfesti þetta í morgun við danska fjölmiðla. Fólkið gisti á hóteli í Colombo, höfuðborg Sri Lanka, og hefur verið leitað síðan á sunnudag. Um er að ræða hjón og voru það börn þeirra í Danmörku sem létu dönsku utanríkisþjónustuna vita að þau næðu ekki í foreldra sína.
Danski milljarðamæringurinn Anders Holch Povlsen og eiginkona hans, Anne, misstu þrjú af fjórum börnum sínum í sprengjutilræði á Shangri-la hótelinu sem þau gistu á í Colombo. Ekki hefur verið upplýst um hvaða börn Holch Povlsen létust en þau eiga son og þrjár dætur á aldrinum fimm til 15 ára. Fjölskyldan var í leyfi á Sri Lanka.
Anders Holch Povlsen er talinn vera auðugasti Daninn en hann hefur alltaf gætt þess að vernda börn sín frá sviðsljósinu. Helsta eign fjölskyldunnar er fatakeðjan Bestseller sem foreldrar Anders stofnuðu á sínum tíma.
Fyrir viku síðan birti Alma, elsta barn Holch Polvsen, mynd af bróður sínum og systrum á Instagram. Þar sjást þau sitjandi á sundlaugarbakka. Frá því hryllingurinn átti sér stað hafa yfir sex þúsund manns skrifað samúðarkveðjur við færsluna.
Holch Povlsen er stærsti hluthafinn í netversluninni ASOS eini hluthafi Bestseller, sem á vörumerki eins og Vero Moda, Only og Jack & Jones. Hann var lagður inn á sjúkrahús í Colombo eftir árásirnar samkvæmt frétt Ekstra Bladet en útskrifaður fljótlega. Að sögn sendiherra Danmerkur í Indlandi er fjölskyldan komin aftur til Danmerkur.
Almenningur í Danmörku veit fátt um líf Holch Povlsen fyrir utan að hann er náinn vinur Friðriks krónprins og Jóakims prins. Hann er mikill áhugamaður um veiðar og sportbíla. Til að mynda hafa fjölmiðlar aldrei náð mynd af allri fjölskyldunni saman. Fjölskyldan gerði allt til þess að forðast sviðsljósið, segir Søren Jacobsen sem hefur skrifað bók um þekkta kaupsýslumenn í Danmörku. Í viðtali við Ekstra Bladet segir Jacobsen ýmar ástæður liggja þar að baki. Til að mynda hafi Dana verið rænt á Indlandi árið 2003. Maðurinn var tekinn í misgripum fyrir Anders Holch Povlsen. Þegar mannræningjarnir áttuðu sig á mistökunum fimm dögum síðar létu þeir manninn lausan.
Nokkrum árum fyrr var ráðist á föður Holch Povlsen,Troels Holch Povlsen, á heimili fjölskyldunnar. Á heimili árásarmannsins fann lögregla leyniklefa, handjárn, eldfiman vökva, hárkollur og bók um eitranir.
Í upphafi var Bestseller ein verslun en foreldrar Anders Holch Povlsen settu hana á laggirnar árið 1975. Anders, sem er fæddur árið 1972, tók við rekstrinum þegar hann var 28 ára gamall. Í dag eru verslanir undir hatti Bestseller yfir þrjú þúsund talsins í 70 löndum.
Holch Povlsen er einnig hluthafi í þýsku netversluninni Zalando og í sænska rafgreiðslufyrirtækinu Klarna. Forbes metur eignir hans á 7 milljarða evra og telur að hann eigi um 1% af skosku landi. Hann er einn stærsti landeigandi Skotlands en meðal eigna hans er Aldourie-kastali á bökkum Loch Ness.
Að eigin sögn féll hann fyrir Skotlandi þegar hann var í leyfi þar. Hann keypti fyrstu eignina í hálöndunum árið 2006.
Sífellt meiri upplýsingar eru að koma fram um þá sem létust í hryðjuverkunum. Þar á meðal einn helsti matreiðslumaður landsins, Shantha Mayadunne, en mynd af henni að snæða morgunverð á Shangri-la-hótelinu nokkrum mínútum áður en sprengjan sprakk var birt af dóttur hennar á Facebook um svipað leyti og árásin var gerð. Þær létust báðar.
Anita Nicholson, 42 ára lögfræðingur hjá Anglo-American, lést ásamt 14 ára gömlum syni sínum, Alex og 11 ára gamalli dóttur, Annabel, á sama hóteli. Eiginmaður hennar, Ben Nicholson, er sá eini úr fjölskyldunni sem lifði af árásina.
Manik Suriaaratchi og 10 ára gömul dóttir hennar, Alexandria, létust í St Sebastian-kirkjunni en þær komu reglulega þangað í messu. Eiginmaður Manik, Sudesh Kolonne, var fyrir utan kirkjuna þegar sprengjan sprakk og lifði af. Fjölskyldan flutti fyrir nokkrum árum aftur til Sri Lanka eftir að hafa verið búsett í Ástralíu í nokkur ár.
Bandaríkjamaðurinn Dieter Kowalski, sem starfaði fyrir breska útgáfufyrirtækið Pearson, lést skömmu eftir komuna til Colombo en hann var í vinnuferð þar.
Foreldrar og þrjú börn þeirra létust í sprengjutilræðinu í St Sebastian-kirkjunni. Rangana Fernando, eiginkona hans, Danadiri og börn þeirra þrjú: 11 mánaða, fjögurra ára og sex ára, voru við páskamessu í kirkjunni.
Kieran Shafritz de Zoysa var 11 ára þegar hann lést en hann var að borða morgunverð á hóteli þegar sprengjan sprakk. Móðir hans, sem var með honum, slapp með minni háttar meiðsl.
Bresk ungmenni, Daniel Linsey, 19 ára og systir hans, Amelie, 15 ára, létust á Shangri-la-hótelinu en þau áttu bókað flug heim til London síðar þennan sama dag. Faðir þeirra, Matthew Linsey, lifði af og lýsti því fyrir The Times hvernig hann hafi reynt að lífga við meðvitundarlausan son sinn án árangurs.
Hjónin Billy Harrop og Sally Bradle voru frá Manchester en hann var kominn á eftirlaun eftir að hafa starfað um árabil sem slökkviliðsmaður. Þau létust á Cinnamon Grand-hótelinu.
Rui Lucas, 31 árs Portúgali lést á Kingsbury-hótelinu en eiginkona hans slapp ómeidd. Þau voru í brúðkaupsferðalagi.