Bretar eru varaðir við því að ferðast til Sri Lanka, nema af bráðri nauðsyn, í kjölfar hryðjuverkaárásanna þar í landi síðasta sunnudag. Alls létust 359 manns í árásunum.
„Utanríkisráðuneyti Bretlands varar við ferðalögum til Sri Lanka vegna ótryggs ástands þar í kjölfar árása 21. apríl 2019,“ er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu á vef ráðuneytisins.
Ríkislögreglustjóri Sri Lanka gaf út viðvörun 11. apríl um mögulega sjálfsvígsárás National Thowheeth Jama'ath og sagði að viðvörun hafi borist frá erlendum leyniþjónustum. Að sögn forsætisráðherra landsins bárust honum aldrei upplýsingar um viðvörunina. Né heldur öðrum ráðherrum. Ríkisstjórnin verði að axla ábyrgð á þessum mistökum. Samkvæmt CNN komu upplýsingarnar frá leyniþjónustu Indlands.
Bandarísk yfirvöld neita því að þau hafi haft þessar upplýsingar undir höndum en teymi sérfræðinga bandarísku alríkislögreglunnar er nú að störfum á Sri Lanka.