Martröð stúlknanna í Bessborough

Kvennaheimilið Bessborough var rekið í átjándu aldar sveitasetri við Cork.
Kvennaheimilið Bessborough var rekið í átjándu aldar sveitasetri við Cork.

Árið er 1960. Bridget, sautján ára, stendur með eina litla ferðatösku fyrir utan stórt steinhús, átjándu aldar sveitasetur, í útjaðri Cork á Írlandi. Hún hefur engan glæp framið. En hún er þangað komin því hún hefur syndgað að sögn nunnanna sem reka kvennaheimilið. Hún er ógift og ólétt og nú á hún að dvelja í þessu skuggalega múrsteinshúsi þar til barnið fæðist. Það yrði svo tekið af henni og gefið til ættleiðingar. 

Í ítarlegri fréttaskýringu BBC er sögð saga stúlknanna í Bessborough. Þær voru ekki fangar, gátu lögum samkvæmt yfirgefið heimilið þegar þær vildu. En raunin var sú að ef þær fóru voru þær hundeltar og handsamaðar af lögreglunni.

Stúlkurnar höfðu vinnuskyldu. Þeim var gert að þrífa allt hátt og lágt og sinna börnum annarra stúlkna sem dvöldu á heimilinu. Börnin og stúlkurnar voru þar í allt að þrjú ár eða þar til einhver bauðst til að ættleiða litlu krílin. Börnin voru ekki hjá mæðrum sínum heldur á vöggustofu.

Hverju barni mátti aðeins sinna í 30 mínútur í senn. Eftir það urðu þær að láta þau frá sér, jafnvel þótt þau teygðu litla handleggi sína í átt að þeim, biðjandi um athygli og hlýju. Bridget minnist þess ekki að börnin hafi haft leikföng. 

Heimilislífið var tilbreytingarlaust. Í húsinu var ekkert dagatal að finna og engar fréttir um það sem var að gerast í samfélaginu bárust þangað. Því yfirheyrðu stúlkurnar hverja þá stúlku sem bættist í hópinn, þær þyrsti í fréttir af umheiminum.

Þegar stúlkurnar komu til heimilisins skrifuðu þær undir skjal þar sem þær afsöluðu sér börnum sínum. Þær voru beittar þrýstingi. Þær vissu að þær gætu ekki snúið aftur heim með börnin sín.

Ættleidd til Bandaríkjanna

Stúlkurnar áttu margar hverjar mjög erfitt með að skilja við börn sín. Í grein BBC lýsir ein því hvernig barn hennar fékk útbrot og að hún hafi óskað þess heitt að þau hyrfu ekki svo að enginn myndi vilja ættleiða það. Önnur fylgdist með dóttur sinni úr fjarlægð á heimilinu en svo einn daginn ættleiddi bandarískt par hana og flutti hana vestur um haf.

Systraregla rak Bessborough-heimilið fyrir írska ríkið. Þar voru börnin tekin …
Systraregla rak Bessborough-heimilið fyrir írska ríkið. Þar voru börnin tekin af mæðrum sínum og gefin til ættleiðingar, m.a. til Bandaríkjanna.

June Goulding, ljósmóðir sem vann í Bessborough snemma á sjötta áratugnum, segir ættleiðingarferlið hafi verið þannig að án nokkurrar viðvörunar hafi börnin eitt af öðru verið tekin, þvegin og klædd í betri föt og sett í fang mæðra sinna. Þær fóru svo með þau inn á ganginn þar sem nunnurnar bjuggu og þar voru börnin tekin af þeim. Hún segir að grátur ungu mæðranna hafi ómað um alla bygginguna. „Ég varð vitni að þessari hroðalegu athöfn sem var endurtekin með hverja og eina móður og barn í þessari vítisholu.“

Fyrsta ástin

Áður en Bridget kom á kvennaheimilið hafði hún verið eins og hver annar ástfanginn unglingur. Hún og pilturinn höfðu unun af því að dansa saman. „Þetta var fyrsta ástin mín. Guð, mín fyrsta lexía í lífinu. Mér fannst hann indæll.“

Á Írlandi á þessum tíma sem og enn þann dag í dag, voru kaþólsk gildi í heiðri höfð. Getnaðarvarnir voru ólöglegar. Stúlkur voru hvattar til að forðast kossa. Þær vissu ekkert um kynlíf. Hvað þá óléttu. „Svo þegar mér fór að líða illa og það fór að hvarfla að mér að ég væri ólétt þá vissi ég ekkert hvað ég átti að gera.“

Fóstureyðing var út úr myndinni. Hún var ólögleg og var það allt til ársins 2018. En að eignast barn utan hjónabands var mikið hneyksli. „Það var verra en morð í þá daga,“ segir Bridget við BBC. 

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

Eina lausnin virtist vera sú að feta í fótspor margra annarra írskra stúlkna: Að flytja til Englands. Þar áttu þær möguleika. Þær gætu horfið í mannfjöldann og alið upp börn sín utan hjónabands.

Bridget gerði það en eftir að þangað var komið og hún allslaus og einmana, var hún hvött til að setja sig í samband við kaþólsk samtök sem á endanum sendu hana og 112 írskar stúlkur til viðbótar aftur til heimalandsins. Bridget grunaði ekki hvað myndi taka við. Á sólríkum degi í ágúst árið 1960 var hún flutt að Bessborough. 

Harðar refsingar

Dvölin þar var skelfileg. Refsingum var beitt. Stundum var Bridget látin standa úti í horni, kasólétt, tímunum saman. Hún fæddi svo barn sitt þremur vikum fyrir tímann. Á fæðingardeild kvennaheimilisins var enga verkjastillingu að fá. Ekki heldur hlý orð í eyra. Eftir að hafa verið með hríðir í þrjá sólarhringa fæddist henni loks drengur. Sem hún segist hafa elskað allt frá fyrstu sýn. „Ég sé hann enn fyrir mér. Hann horfði í kringum sig. Mjög forvitnislega, fallegur, fullkomið barn með ljóst hár og blá augu.“

Hún vildi nefna hann William sem var ekki algengt nafn á Írlandi í þá daga. Þannig taldi hún sig geta átt auðveldara með að hafa uppi á honum síðar meir. Nunnurnar vildu hins vegar nefna hann Gerard og niðurstaðan var sú að á fæðingarvottorði drengsins stóð nafnið Gerard William.

Fyrstu dagana nærðist drengurinn vel. En svo fór hann að veikjast og sömuleiðis Bridget. Aðrar stúlkur á kvennaheimilinu sögðu henni að drengurinn hennar hefði verið fluttur í „dauðaherbergið“. Hún grátbað nunnurnar um að sækja lækni handa honum. Þær sögðu henni að drengurinn væri með fæðingargalla en Bridget hefur alla tíð álitið það rangt. William litli var ekki fyrr en sextán dögum síðar fluttur á sjúkrahús. Hann lést þremur vikum síðar.

Bridget fékk ekki að sjá hann. Henni var ekki sagt hvar hann var jarðaður eða hvað hafði gerst. 

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

Þúsundir sambærilegra mála

Hún yfirgaf Bessborough viku síðar. Heimilið fékk ekki lengur ríkisstyrk fyrir að sjá um hana. Hún var enn veikburða en vissi að hún yrði að finna sér vinnu fljótt. Hún ákvað að fara aftur til Englands þar sem hún fékk fljótlega vinnu í London. Hún giftist síðar og eignaðist þrjár dætur.

Saga Bridget er sannarlega ekki einsdæmi. Þessi skelfilega starfsemi þreifst á Írlandi áratugum saman á sautján öðrum kvennaheimilum. Hún snerti líf þúsunda kvenna.

Kastljósið er nú loks farið að beinast að þeim mannréttindabrotum sem þar voru framin. Síðustu ár hafa írskir rannsóknarblaðamenn flett ofan af málinu, m.a. því að þúsundir írskra barna voru gefin til Bandaríkjanna til ættleiðingar. 

Barnslík í rotþrónni

Árið 2014 greindi sagnfræðingur frá þeirri kenningu sinni að við eitt heimilið, í Tuam í Galway, væru líkamsleifar um jafnvel 800 barna að finna í rotþró. Í kjölfarið krafðist almenningur þess að hið opinbera myndi rannsaka málið og öll kvennaheimilin sem höfðu starfað í landinu. Heimilin voru m.a. ásökuð um að hafa grafið lík barna í ómerktum gröfum, að þvinga konur og stúlkur til að gefa börn sín, að sinna ekki heilsu kvenna og barna, að beita vistmenn margs konar ofbeldi og að hafa staðið ólöglega að ættleiðingum. Einnig eru þau sökuð um að hafa gert tilraunir á barnslíkum.

Í fréttaskýringu BBC er einnig reynt að varpa ljósi á hvers vegna þessi heimili voru sett á stofn og hvers vegna starfsemi þeirra var viðurkennd og talin ásættanleg.

Eftir að Írland fékk sjálfstæði frá Bretum á þriðja áratug síðustu aldar varð stjórn þess að ákveða með hvaða hætti ætti að aðstoða fólk sem þyrfti aðstoð af einhverju tagi. Hin nýju stjórnvöld höfðu áhyggjur af siðferði og sérstaklega siðferði ungra, ógiftra kvenna. Kaþólska kirkjan hafði mikil ítök og sinnti margvíslegri félagslegri aðstoð í þessu nýja ríki þar sem fátækt var útbreidd. Yfirvöld báðu því kaþólsku kirkjuna um að koma upp sérstökum heimilum fyrir ógiftar verðandi mæður. Starfsemi heimilanna var því kostuð af hinu opinbera.

Bessborough var eitt fyrsta heimilið af þessari tegund, stofnað árið 1922 og rekið af kaþólskri systrareglu. Þessi systraregla hóf svo fljótlega rekstur tveggja annarra heimila. 

Það kom fyrir að rekstur heimilanna var gagnrýndur. Heimilinu í Bessborough var t.d. lokað tímabundið á fimmta áratugnum eftir að heilbrigðisyfirvöld komust að því að á einu ári hefðu 100 af 180 börnum sem þar fæddust dáið.

Lítil stúlka í leikgrind fyrir utan Bessborough.
Lítil stúlka í leikgrind fyrir utan Bessborough.

„Síbrotamenn“

Heimilin höfðu engan lagalegan rétt til að halda konum þar föngnum en í öllum skjölum heimilanna var talað um „glæpi þeirra“. „Fyrsta brot“, stóð þar sem réttilega hefði átt að standa fyrsta ólétta. „Síbrotamenn“ voru þær konur kallaðar sem oftar en einu sinni urðu óléttar utan hjónabands.

Eftir að þær fæddu börn sín voru þær svo látnar dúsa á heimilinu í allt upp í þrjú ár, þær voru sagðar veikgeðja og að þetta væri gert öryggis þeirra vegna. Oftast voru það læknar og prestar sem sendu stúlkurnar á heimilin með samþykki foreldra þeirra.

Talið er að milli 7 og 10 þúsund mæður hafi fætt börn sín í Bessborough. Mannréttindahópar telja að börn hafi verið tekin af um 90 þúsund írskum mæðrum frá því að landið fékk sjálfstæði.

Bessborough hélt uppteknum hætti og var ekki lokað fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar. Yfir 900 börn létust þar. Grafir aðeins 64 þeirra eru þekktar.

Ítarlega fréttaskýringu BBC um málið má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert