Leiðtogi árásarmannanna einn hinna látnu

Skjáskot úr myndbandinu sem Ríki íslams birti skömmu eftir árásina. …
Skjáskot úr myndbandinu sem Ríki íslams birti skömmu eftir árásina. Zahran Hashim er sá eini sem sýnir andlit sitt. AFP

Zahran Hashim, meintur leiðtogi NTJ-öfgahópsins sem stóð að árásum á kirkjur og hótel á Sri Lanka sem kostuðu  253 manns lífið og særðu hundruð til viðbótar, var einn þeirra sem lést í árásunum. Þetta staðfesti Maithripala Sirisena forseti Sri Lanka í dag. Áður hafði verið greint frá því að yfirvöld teldu Hashim vera í hópi níumenninganna sem frömdu sjálfsvíg í árásunum.

BBC hefur eftir Sirisena að Hashim, sem var róttækur en lítt þekktur klerkur, hefði farist í árásinni á Shangri-La-hótelið í Colombo, höfuðborg landsins.

Sagði Sirisena að Hashim hefði leitt árásina á hótelið, sem naut mikilla vinsælda hjá ferðamönnum, en að með honum í för hafi verið annar árásarmaður sem sagður er hafa heitið Ilham. Hann útskýrði hins vegar ekki frekar hvert hlutverk Hashim í árásinni hefði verið.

Þá sagði forsetinn leyniþjónustustofnanir Sri Lanka nú telja að um 130 manns sem talin eru hafa tengsl við vígasamtökin Ríki íslams séu í landinu og að lögregla leiti nú þeirra 70 sem enn séu frjálsir ferða sinna.

Maithripala Sirisena, forseti Sri Lanka, heimsækir hér St. Sebastian's-kirkjuna í …
Maithripala Sirisena, forseti Sri Lanka, heimsækir hér St. Sebastian's-kirkjuna í Negombo tveimur dögum eftir árásirnar á páskadag. AFP

Hvatti til ofbeldis á YouTube

BBC segir Hashim hafa verið lítt þekktan öfgamann í heimalandi sínu. Hann hefði þó vakið á sér athyli fyrir nokkrum árum, er hann tók þátt í að eyðileggja búddalíkneski. Þá eignaðist hann nýlega fylgismenn á YouTube með myndböndum þar sem hann hvatti til ofbeldis gegn þeim sem ekki eru íslamstrúar.

Ríki íslams birti, skömmu eftir árásirnar á páskadag, myndband sem sýnir sjö menn heita vígasamtökunum hollustu og er talið að sjömenningarnir séu hluti árásarhópsins. Hashim er sá eini í myndbandinu sem sýnir andlit sitt. Ekki liggur hins vegar ljóst fyrir hvort Hashim hafi verið í beinum tengslum við samtökin, eða hvort hann hafi einfaldlega heitið þeim hollustu og Ríki íslams í kjölfarið lýst yfir ábyrgð á árásunum.

Hashim var frá sjávarþorpinu Kattankudy og hafði BBC eftir systur hans fyrr í vikunni að hún væri skelfingu lostinn yfir gjörðum bróður síns. „Jafnvel þó að hann sé bróðir minn, þá get ég ekki sætt mig við þetta,“ sagði hún og kvað þau hafa verið í sambandi þar til fyrir tveimur árum er hann hætti að hafa samband.

Vopnaður öryggislögreglumaður stendur vörð við mosku í Colombo, höfuðborg Sri …
Vopnaður öryggislögreglumaður stendur vörð við mosku í Colombo, höfuðborg Sri Lanka. AFP

Lögreglustjórinn búinn að segja af sér

Sirisena sagði fjölmiðlum að lögregla leitaði enn fjölda meintra liðsmanna Ríkis íslams í landinu, en ekki var ljóst af orðum hans hvort aðrir sem taldir eru tengjast árásunum væru í varðhaldi eða hefðu flúið land.

Þá sagði hann lögreglustjóra landsins Pujith Jayasundara hafa sagt af sér vegna málsins, en áður hafði varnarmálaráðherra Sri Lanka, Hemasiri Fernando, látið af embætti.

Pujith Jayasundara, lögreglustjóri Sri Lanka, hefur sagt af sér vegna …
Pujith Jayasundara, lögreglustjóri Sri Lanka, hefur sagt af sér vegna árásanna á páskadag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert