Löngu áður en yfirvöld í Sádi-Arabíu tilkynntu að framkvæmdar yrðu aftökur, einar þær fjölmennustu í sögu landsins, höfðu margir mannanna sem dæmdir voru til dauða í örvæntingu reynt að fá dómstóla til að bjarga lífi þeirra.
Margir sögðust saklausir af öllum sakarefnum og greindu frá því að játningar þeirra hefðu verið skrifaðar af sömu mönnum og hefðu pyntað þá. Sumir sögðust hafa sannanir fyrir ofbeldinu sem þeir sem yfirheyrðu þá beittu. Einn gekk svo langt að sverja Salman konungi og syni hans, Mohammed bin Salman, hollustu sína, tryggð og trú, í þeirri veiku von að lífi hans yrði þyrmt.
En allt kom fyrir ekki.
Á þriðjudag í síðustu viku tilkynntu sádiarabísk stjórnvöld að 37 menn hefðu verið teknir af lífi. Að þeir hefðu verið dæmdir fyrir hryðjuverk og til dauða. Þrír þeirra voru yngri en átján ára er þeir áttu að hafa framið glæpi sína. Lík eins mannsins var krossfest eftir aftökuna, hengdur upp og hafður til sýnis, sem víti til varnaðar.
Mennirnir voru hálshöggnir, að líkindum með beittri sveðju. Flestir eiga þeir það sameiginlegt að hafa verið sjíta-múslimar, sem eru í minnihluta í olíuríkinu. Þrátt fyrir að engar opinberar tölur séu til um það, er talið að 10-15% af 32 milljónum íbúa í Sádi-Arabíu séu sjítar.
Sá yngsti sem var tekinn af lífi var Abdulkareem al-Hawaj. Hann var sagður hafa tekið þátt í ofbeldisfullum mótmælum er hann var aðeins sextán ára. Fjölmargar stofnanir, samtök og ríkisstjórnir fordæmdu dauðadóminn sem hann hlaut og kröfðust þess að hann yrði sýknaður. Við því var ekki orðið.
Mujtaba al-Sweikat var gert að sök hafa tekið þátt í mótmælum árið 2012, er hann var sautján ára. Hann var handtekinn á flugvelli í Sádi-Arabíu er hann var á leið til Bandaríkjanna þar sem hann hafði fengið inngöngu í háskóla.
Í ítarlegri fréttaskýringu CNN um málið, sem m.a. er unnin upp úr hundruðum dómsskjala, segir að í réttarhöldum yfir 25 mannanna árið 2016 hafi ellefu verið sakfelldir fyrir að stunda njósnir fyrir Írana. Fjórtán voru sakfelldir fyrir að stofna hryðjuverkahóp í kringum mótmæli sem fram fóru í borginni Awamiya árin 2011 og 2012.
Yfirvöld í Sádi-Arabíu sögðu málið hreint og beint: Mennirnir hefðu játað og voru svo dæmdir fyrir glæpi sína. Árið 2017 lýstu Sameinuðu þjóðirnar yfir áhyggjum sínum um að pyntingum hefði verið beitt til að knýja fram játningar en því neituðu sádiarabísk yfirvöld staðfastlega. Sögðu þau, máli sínu til sönnunar, að mennirnir hefðu ekki aðeins játað glæpi sína við yfirheyrslur heldur einnig frammi fyrir dómurum í réttarsal.
Gögnin sem fréttamenn CNN hafa unnið upp úr draga hins vegar upp allt aðra mynd. Sumir mannanna sögðu oftsinnis við réttarhöldin að játningar þeirra væru falsaðar og að þeir hefðu verið pyntaðir til að ná þeim fram. Þeir sögðu pyntarana hafa skrifað játningarnar og einverjir þeirra staðfestu þær aðeins með fingrafari.
„Þetta eru ekki mín orð,“ sagði Munir al-Adam, einn hinna ákærðu við réttarhöldin. „Ég skrifaði ekki bréf.“ Hinn 27 ára gamli al-Adam var bæði sjónskertur og heyrnardaufur.
Flestir mannanna sem teknir voru af lífi tilheyrðu minnihlutahópi sjíta-múslima. Samfélag þeirra í Sádi-Arabíu hefur lengi andmælt þeirri jaðarsetningu sem þeir verða fyrir á flestum sviðum.
Borgin Awamiya í austurhluta Sádi-Arabíu, er ein fárra þéttbýlisstaða landsins þar sem sjítar eru í meirihluta. Þar hófst arabíska vorið svokallaða í landinu árið 2011. Arabíska vorið, vakning og hreyfing þar sem breytinga á stjórnarháttum var krafist, breiddist út um allan hinn arabíska heim. Allir fjórtán fangarnir, sem höfðu verið handteknir og ákærðir fyrir að stofna hryðjuverkahóp við upphaf arabíska vorsins, neituðu sök. Sumir mannanna voru í hinum skrifuðu játningum sagðir hafa stundað kynlíf með öðrum karlmönnum en samkynhneigð er ólögleg í Sádi-Arabíu. Einn þeirra var ungur maður. Hann var ákærður fyrir alls konar ofbeldisverk að auki.
Í dómskjölunum, sem CNN hefur undir höndum, segir m.a.: „Hann sagðist hafa gert allt þetta því hann væri sjíti og væri andstæðingur súnní[múslima] og af því að hann hataði ríkið og alla þess menn og heri þess.“
Ungi maðurinn neitaði sök við réttarhöldin.
Annar lýsti því fyrir dómi að honum hefði verið misþyrmt, hann hefði nefbrotnað, viðbeinsbrotnað og fótbrotnað í pyntingunum. Sagði hann að sjúkraskýrslur fangelsissjúkrahússins myndu sanna orð sín.
Sádi-Arabía er í hópi þeirra landa sem dæma flesta til dauða. Í janúar árið 2016 voru 47 fangar teknir af lífi, þeirra á meðal sjítaklerkurinn Nmr al-Nimr. Sá hópur var einnig dæmdur fyrir hryðjuverk.
Mohammed bin Salman, krónprins landsins, hefur leitt herferð gegn gagnrýnendum stjórnvalda, frá því að hann steig fram á hið pólitíska svið árið 2015. Hann hefur einnig látið handtaka prinsa, menn úr viðskiptalífinu og kvenréttindakonur, svo dæmi séu tekin. Í þeim hópi er fólk sem segist hafa verið pyntað í varðhaldinu.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu og þá sérstaklega krónprinsinn, hefur átt í vök að verjast vegna ásakana um þátttöku í morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi á ræðismannaskrifstofu í Tyrklandi í október í fyrra. Leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, segist hafa sannanir fyrir því að bin Salman sjálfur hafi fyrirskipað morðið. Því hafa sádiarabísk stjórnvöld neitað.
Fjöldaaftakan í síðustu viku var framkvæmd degi áður en stór viðskiptaráðstefna hófst í borginni Riyadh. Það stoppaði ekki forsprakka úr viðskiptalífinu að mæta m.a. forstjóra breska bankans HSBC, forstjóra JPMorgan, fulltrúa Morgan Stanley og fleiri.
CNN sóttist eftir að fá viðbrögð þessara fjármálafyrirtækja við aftökunum sem hafa verið fordæmdar um allan heim. JPMorgan og Morgan Stanley neituðu að svara.