Bjargaði hundruðum á Srí Lanka

Kona grætur yfir dauðsfalli ættingja sem átti sér stað í …
Kona grætur yfir dauðsfalli ættingja sem átti sér stað í sprengjuárás í Srí Lanka. AFP

Ramesh Raju er hyllt­ur sem hetja í Srí Lanka eft­ir að hann lést við að hindra för manns með sjálfs­morðssprengj­ur inn í evangelísku kirkj­una Zion í Batticaloa héraðinu í Srí Lanka. Með því bjargaði hann hundruðum sem voru inni í kirkj­unni.

Raju lést ásamt 28 öðrum, þar af 14 börn­um, sem voru fyr­ir utan kirkj­una. Um 600 manns voru inn­an­dyra og sluppu frá sprengj­unni. Kirkj­an var ein af þrem­ur kirkj­um sem ráðist var á en einnig var árás gerð á þrjú hót­el. 

Tæpri viku eft­ir árás­irn­ar hanga vegg­spjöld og mynd­ir af Raju við hlið veg­ar­ins sem leiðir að húsi hans. Raju var 40 ára gam­all tveggja barna faðir og ekkja hans, sem starfar sem kenn­ari í sunnu­daga­skóla, hef­ur fengið fjöld­ann all­an af samúðarkveðjum. 

„Þegar hann grunaði að maður­inn væri með sprengj­ur þá hefði hann getað hlaupið í ör­uggt skjól en ég held að hann hafi ákveðið að stofna frek­ar til rysk­inga svo maður­inn kæm­ist ekki inn í kirkj­una,“ sagði faðir Raju, hinn 63 ára gamli Velu­sami Raju, við frétta­stof­una AFP.

„Ég er ofboðslega stolt­ur af því að hann hafi bjargað svona mörg­um, sér­stak­lega svona mörg­um börn­um,“ bætti faðir­inn við. 

Forðaði fjölda barna frá líf­láti

Kirkj­an var full af fólki þegar árás­ar­mann­inn bar að garði. Sér­stak­lega voru mög börn í kirkj­unni en sunnu­daga­skól­an­um hafði lokið skömmu áður. Raju hafði boðið sig fram til að stjórna mann­fjöld­an­um. 

Þegar Raju sá ókunn­an mann sem hélt á tveim­ur gríðar­stór­um tösk­um stóð Raju í vegi fyrri mann­in­um og bað hann um að skilja tösk­urn­ar eft­ir. Sprengj­an sprakk í deil­unni á milli mann­anna tveggja. 

„Hann var virki­lega góður maður,“ sagði faðir Raju sem lýsti syni sín­um sem stoð og styttu fjöl­skyld­unn­ar. Faðir Raju ræddi við hann í síma nokkr­um mín­út­um áður en sprengj­an sprakk. Raju var upp­tek­inn og lofaði að hringja í föður sinn þegar guðsþjón­ust­unni lyki. Þegar sími föður­ins hringdi aft­ur þá var það ekki Raju held­ur sókn­ar­barn sem til­kynnti föðurn­um að Raju hefði lát­ist í spreng­ingu. 

Yngri syst­ir Raju lést einnig í spreng­ing­unni ásamt eig­in­manni sín­um og 20 mánaða göml­um syni þeirra. 

„Ég missti barna­barnið mitt en á sama tíma er ég svo stolt­ur að son­ur minn hafi bjargað svo mörg­um börn­um svo aðrar fjöl­skyld­ur þurfi ekki að upp­lifa það sama og við,“ sagði faðir Raju og reyndi að halda aft­ur af tár­un­um. „Ég vona að gjörðir son­ar míns blási öðrum hug­rekki í brjóst.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert