Mun ekki fullgilda vopnasölusamninginn

Trump kætti byssuglaða Bandaríkjamenn innan raða NRA með yfirlýsingu sinni …
Trump kætti byssuglaða Bandaríkjamenn innan raða NRA með yfirlýsingu sinni í gær. AFP

Donald Trump forseti Bandaríkjanna segir að hann ætli sér að draga ríkið frá vopnasamkomulagi Sameinuðu þjóðanna (Arms Trade Treaty/ATT), alþjóðasáttmála sem gildir um vopnasölu á milli ríkja heims og var undirritaður árið 2013 með aðkomu 130 ríkja.

Í sáttmálanum felst að ríki heims þurfa að ganga úr skugga um að ríkin sem þau selja úr landi verði ekki notuð til þess að fremja þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi eða hryðjuverk.

„Við ætlum að afturkalla undirritun okkar,“ sagði forsetinn á fundi NRA, samtaka byssueigenda í Bandaríkjunum, í Indianapolis í gær, samkvæmt frétt BBC um málið.

Barack Obama undirritaði vopnasamkomulagið fyrir hönd Bandaríkjanna árið 2013. Undirritunin hefur þó ekki verið fullgilt af bandaríska þinginu og sagðist Trump ætla að koma í veg fyrir að svo yrði.

„Undir minni stjórn munum við aldrei framselja fullveldi Bandaríkjanna til neins,“ sagði Trump, en NRA hafa haft þá afstöðu til sáttmálans að um sé að ræða alþjóðlegar takmarkanir á byssueign, sem stríði gegn stjórnarskrárbundnum rétti bandarískra þegna til þess að ganga með skotvopn.

„Við munum aldrei leyfa erlendum bjúrókrötum að stappa á frelsi ykkar samkvæmt annarri grein stjórnarskrárinnar,“ sagði Trump.

Eftir ræðu Trumps sendi Hvíta húsið frá sér tilkynningu, þar sem fram kom að vopnasamkomulag SÞ væri ófullnægjandi lausn á „óábyrgri“ vopnasölu á milli ríkja, þar sem bæði Rússland og Kína hefðu ekki skrifað undir sáttmálann.

Bandaríkin eru langstærsta vopnasöluríki heims og selja 58% meira af vopnum úr landi en Rússar, samkvæmt frétt BBC um málið.

Vopnasala Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja til Sádi-Araba hefur verið gagnrýnd, enda vopnin notuð í stríðinu í Jemen, sem hefur kostað þúsundir almennra borgara lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert