Faðir meints skipuleggjanda drepinn

Vopnaðir hermenn í Colombo, höfuðborg Srí Lanka.
Vopnaðir hermenn í Colombo, höfuðborg Srí Lanka. AFP

Faðir og tveir bræður meints skipuleggjanda sprengjuárásanna á Srí lanka, Zahram Hashim, voru drepnir í aðgerðum öryggissveita á föstudaginn, að sögn lögreglu. BBC greinir frá þessu.

Hashim, sem sprengdi sjálfan sig upp á hóteli í höfuðborg Srí Lanka, Colombo, stofnaði íslamska hópinn National Tawheed Jamath, NTJ, sem hefur nú verið bannaður. Hópnum hefur verið kennt um árásirnar þó hann hafi ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér. Lögreglan hefur nú þegar ráðist inn í höfuðstöðvar NTJ í bænum Kattankudy. 

Árásirnar sem gerðar voru á hótel og kirkjur fyrir viku síðan urðu tæplega 250 manns að bana. Sunnudagsmessum var aflýst á landsvísu í Srí Lanka í dag vegna atviksins. Tilbiðjendur söfnuðust þó saman fyrir framan St Anthonys kirkjuna sem skemmdist illa í árásunum. 

Forseti og forsætisráðherra Srí lanka mættu í kristna athöfn sem haldin var í dag og var sjónvarpað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert