Blýmengun hefur mælst í nágrenni dómkirkjunnar Notre Dame í París, höfuðborg Frakklands, í kjölfar eldsvoðans í kirkjunni um miðjan aprílmánuð. Hefur lögreglan í borginni hvatt nágranna dómkirkjunnar til þess að bregðast við með því að þurrka burt ryk sem kunni að hafa safnast fyrir eftir eldsvoðann og inniheldur blý.
Fram kemur í frétt AFP að takmörkuð hætta væri þó talin á ferðum og engar upplýsingar hefðu borist um blýeitrun enda tæki yfirleitt nokkur ár fyrir blýeitrun að byggjast upp. Sýnatökur hafa leitt í ljós að blý, sem finna mátti í þaki dómkirkjunnar og turnspíru hennar hafi losnað út í andrúmsloftið og dreifst um næsta nágrenni hennar.
Lögreglan segir að blýmengunin hafi ekki náð mjög langt og að hún virðist aðallega bundin við húsnæði sem kunni að hafa staðið opið á meðan á eldsvoðanum stóð. Mælt er með því að húsnæði í næsta nágrenni Notre Dame sé hreinsað og meðal annars að strokið sé af húsgögnum með rökum klútum til þess að fjarlægja allt ryk.
Ennfremur segir í fréttinni að almenningssvæðum sem kunna að hafa orðið fyrir blýmengun, eins og garðar í kringum dómkirkjuna, hafi verið lokað og verða þau ekki opnuð fyrir almenning á ný fyrr en blýgildi eru orðin eðlilega á nýjan leik. Tæpum tveimur vikum eftir eldsvoðann er enn stórt svæði í kringum kirkjuna lokað almenningi.
Þá segir að frönsk umhverfisverndarsamtök hafi varað við því í síðustu viku að um 300 tonn af blýi af þaki Notre Dame hafi bráðnað í eldsvoðanum en hitinn í kirkjunni fór að sögn embættismanna allt upp í 800 gráður þegar hann var mestur. Telja samtökin að fara þurfi í gagngerar aðgerðir til þes að koma í veg fyrir mengun frá kirkjunni.